Anne Whitney (2. september 1821 – 23. janúar 1915) var bandarískur myndhöggvari og skáld frá Massachusetts. Hún er meðal annars þekkt fyrir styttur af sögulegum persónum eins og Samuel Adams, Harriet Beecher Stowe, Toussaint Louverture og Leifi Eiríkssyni. Verk hennar fela oft í sér vísanir í pólitískar skoðanir hennar, en hún var andstæðingur þrælahalds og fylgjandi auknum kvenréttindum og jöfnum tækifærum.
Foreldrar hennar voru frjálslyndir únitarar frá Watertown í Massachusetts.[1] Hún hóf að fást við höggmyndalist án formlegrar listmenntunar sem ekki var talin við hæfi kvenna á þeim tíma, en lærði síðar teikningu við Pennsylvania Academy of the Fine Arts.[1][2] Ljóð hennar voru birt í tímaritum og hlutu góða dóma.[3] Árið 1862 kom hún sér upp vinnustofu í Boston þar sem hún tók að vinna styttur í fullri stærð. Árið 1867 flutti hún til Rómar þar sem hún var í tengslum við hóp bandarískra listakvenna sem störfuðu þar. Þar gátu þær notast við naktar karlkyns fyrirsætur sem ekki þótti við hæfi í Bandaríkjunum.[3] Á þeim tíma var mikill órói í landinu í kjölfar sameiningar Ítalíu og meðan hún var í heimsókn í Bandaríkjunum 1870 hertók Giuseppe Garibaldi Róm. Hún flutti aftur til Boston 1871 og bjó þar til æviloka með sambýliskonu sinni, Abby Adeline Manning.[1][4]