Arísóna (franska: Arizona) eftir belgíska teiknarann Morris (Maurice de Bevere) er þriðja bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1951, en sögurnar sem hún hefur að geyma birtust fyrst í Teiknimyndablaðinu Sval á árunum 1946-1949.
Bókin hefur að geyma tvær sögur, Arizona 1880 og Lucky Luke contre Cigarette Cæsar. Í fyrri sögunni segir frá eltingaleik Lukku Láka við tvo bíræfna stigamenn sem ræna póstvagni og reyna að flýja með ránsfenginn. Eftir mikil átök á krá í Nuggborg (e. Nugget town) komast þjófarnir undan með þýfið, en Lukku Láki neitar að gefast upp og heldur áfram eftirför. Í síðari sögunni reynir Lukku Láki að klófesta byssubófann Sesar Soghólk sem strýkur úr fangelsi og kemst yfir landamærin til Mexíkó. Lukku Láki eltir og eftir ýmis ævintýri, þar með talið þátttöku í nautaati í smábæ einum, tekst Láka að hafa hendur í hári bófans og flytja hann aftur til fyrri heimkynna bak við lás og slá.
Sagan Arizona 1880 birtist í bókinni Meðal róna og dóna í Arisóna og Gullnáman sem Fjölvi gaf út árið 1979 í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen. Sagan um Sesar Soghólk hefur ekki komið út á íslensku.