Bjarni Pálsson (fæddur 17. maí 1719, dáinn 8. september 1779) var íslenskur læknir og náttúrufræðingur. Hann var fyrsti landlæknir Íslands.
Bjarni fæddist að Upsum á Upsaströnd við Dalvík. Foreldrar hans voru hjónin séra Páll Bjarnason prestur á Upsum og Sigríður Ásmundsdóttir. Bjarni missti föður sinn tólf ára að aldri og fluttist þá með móður sinni að Stað í Hrútafirði. Hann hóf nám í Hólaskóla 1734 en hætti vorið 1736 til að gerast fyrirvinna móður sinnar. Hann hóf þó nám að nýju síðar og lauk stúdentsprófi frá Hólaskóla 1745, þá 26 ára að aldri. Hann innritaðist í Kaupmannahafnarháskóla 1746 og lagði þar stund á læknisfræði og náttúruvísindi.
Bjarni lauk læknanámi í september 1759 fyrstur Íslendinga og var þá orðinn fertugur. Hann var skipaður fyrsti landlæknir Íslands 18. mars 1760 og bjó eftir það á Bessastöðum og síðan á Nesi við Seltjörn þar sem nú er Nesstofa á Seltjarnarnesi. Hann kenndi nokkrum mönnum læknisfræði og veitti sumum þeirra lækningaleyfi eftir að hafa prófað þá en aðrir sigldu til Kaupmannahafnar og luku þar læknanámi.
Kona Bjarna var Rannveig Skúladóttir (1742-1803), dóttir Skúla Magnússonar landfógeta. Sveinn Pálsson læknir skrifaði ævisögu Bjarna og var hún gefin út í Leirárgörðum árið 1800.
Bjarni var einn af boðberum upplýsingarinnar á Íslandi. Á námsárum sínum 1750 og 1752-1757 ferðaðist hann um Ísland ásamt Eggerti Ólafssyni á sérstökum styrk frá danska ríkinu. Þá gengu þeir félagar m.a. á Heklu fyrstir manna svo vitað sé. Það var aðfaranótt 20. júní 1750 sem þeir stóðu á Heklutindi.
Afrakstur ferðalaganna um landið var Íslandslýsing, sem kölluð er Ferðabók Eggerts og Bjarna og kom út árið 1772 en hefur oft verið gefin út síðan.