Björn Halldórsson

Björn Halldórsson (5. desember 172424. ágúst 1794) var prestur í Sauðlauksdal. Hann var frumkvöðull í garðrækt og jarðyrkju á Íslandi. Enn í dag sést móta fyrir Akurgerði, gróðurreit þar sem Björn ræktaði kartöflur frá 1760. Minnismerki um sr. Björn er í Sauðlauksdal. Hann var mágur Eggerts Ólafssonar skálds. Björn var einn helsti boðberi upplýsingarinnar á Íslandi. Hann setti einnig fram byltingakenndar hugmyndir um gagnsemi brjóstamjólkur.

Björn Halldórsson fæddist 5. desember árið 1724 í Vogsósum í Selvogi, þar sem faðir hans, Halldór Einarsson (169521. nóvember 1738), var þá prestur. Kona hans og móðir Björns var Sigríður Jónsdóttir (16928. september 1763) frá Gilsbakka í Hvítársíðu. Sama ár og Björn fæddist varð faðir hans prestur á Stað í Steingrímsfirði. Þar ólst Björn upp til fjórtán ára aldurs en þá lést faðir hans. Þá fékk hann ókeypis vist í Skálholtsskóla hjá Jóni biskupi Árnasyni sökum þess hve biskupinn hafði mikið álit á föður Björns. Í Skálholti nam hann í fimm vetur og í stúdentsvottorði sínu var hann stimplaður sem siðprúður og vandaður maður sem best var að sér í latínu, grísku og guðfræði.

Næstu árin var hann ritari sýslumanns og eftir það aðstoðarprestur í Sauðlauksdal. Vorið 1753 varð hann svo prestur í Sauðlauksdal og árið 1756 prófastur. Það ár giftist hann Rannveigu Ólafsdóttur. Þau bjuggu í Sauðlauksdal í nærri 30 ár þangað til heilsu Björns fór að hraka. Þá sótti hann um rólegra embætti og fékk Setberg í Eyrasveit árið 1782. Heilsa hans skánaði þó ekki við flutninginn og árið 1785 veiktist hann alvarlega og missti sjónina í kjölfarið.

Björn lét þó ekki bugast og þann 25. september 1785 hélt hann til Danmerkur í leit að lækningum. Þar dvaldist hann til ársins 1788 en tilraunir danskra lækna báru engan árangur og kom Björn því heim aftur jafn blindur og slappur og áður. Næstu árin lifði Björn rólegu lífi á Setbergi en við sólsetur 24. ágúst 1794 lést hann, 69 ára gamall.

Frumkvöðlastarf í jarðyrkju

[breyta | breyta frumkóða]

Þann tíma sem Björn bjó í Sauðlauksdal vann hann mikið frumkvöðlastarf í jarðyrkju. Björn reyndi ávallt að leysa þau vandamál sem upp komu og auka þar með frjósemi túna. Eitt þessara vandamála og jafnframt helsta vandamál bænda í Sauðlauksdal var sandurinn. Þessi fíni skeljasandur sem fauk í sífellu úr fjörunni og upp á túnin og dró þannig mjög úr frjósemi þeirra. Björn reyndi að sá melgresi í sandinn til þess að binda hann en það erfiði skilaði litlu. Öllu áhrifmeiri var garður sem hann lét gera umhverfis túnið. Þessi garður var heljar mannvirki enda 940 metra langur. Við lagningu hans fékk Björn leyfi landsstjórnar til að skylda sóknarmenn að vinna við garðinn og nýtti hann sér það leyfi. Ekki voru sóknarmennirnir sáttir við það og nefndu garðinn því Ranglát en það nafn hefur loðað við hann síðan.

Auk ofannefndra stórframkvæma lét Björn einnig gera ýmsa smáhluti. Hann lét ræsa fram smálindir með skurðum sem skilaði sér í þurrara og betra túni. Þetta umframvatn leiddi hann í læk um bæjarhúsin og stíflaði lækinn þannig að smátjarnir mynduðust. Þessar tjarnir mátti svo nýta til þvotta auk þess sem lifandi silungar voru stundum geymdir í þeim svo bjóða mætti gestum ferskan fisk.

Frumkvöðlastarf í garðrækt

[breyta | breyta frumkóða]

Moldin í Sauðlauksdal fékk lítinn frið meðan Björn bjó á staðnum enda var hann kappsamur garðyrkjumaður og gerði tilraunir með ýmsar jurtir sem aldrei höfðu sést á Íslandi áður. Fyrstu tilraunir voru á sviði kornræktar og hóf Björn þær í kjölfarið af því að Danakonungur fyrirskipaði öllum íslenskum bændum að framkvæma slíkar tilraunir. Þessar tilraunir mistókust því miður allar og Björn sneri sér því að öðrum jurtum. Meðal þeirra var kál, næpur, kartöflur og fleira og fljótlega var Björn kominn með fjóra allstóra matjurtargarða í Sauðlauksdal.

Af þessu er hann frægastur fyrir kartöflurækt sína enda var hann með þeim fyrstu sem tókst að rækta kartöflur á Íslandi. Strax árið 1758 pantaði hann nokkrar kartöflur frá Kaupmannahöfn (það sama haust voru fyrstu íslensku kartöflurnar teknar upp á Bessastöðum). Þessi farmur komst þó ekki á leiðarenda fyrr en í ágúst sumarið eftir og þá höfðu þá allar kartöflurnar spírað á leiðinni. Þar sem liðið var á sumarið gróðursetti Björn þær einungis í potti og það bar þann árangur að í október fékk hann litla uppskeru með kartöflum á stærð við piparkorn. Þessar kartöflur gróðursetti hann svo næsta sumar og fjórum vikum síðar gat hann státað sig af myndarlegri kartöfluuppskeru.

Ævitíminn eyðist

Ævitíminn eyðist, unnið skyldi langtum meir.
Síst þeim lífið leiðist
sem lýist þar til út af deyr.
Þá er betra þreyttur fara að sofa
nær vaxið hefur herrans pund
en heimsins stund
líði í leti og dofa.

Eg skal þarfur þrífa
þetta gestaherbergi,
eljan hvergi hlífa
sem heimsins góður borgari.
Einhver kemur eftir mig sem hlýtur.
Bið eg honum blessunar
þá bústaðar
minn nár í moldu nýtur.

Björn Halldórsson

Björn Halldórsson var einnig kunnur fyrir ritstörf og skrifaði hann ýmis rit sem lúta að þjóðnytjum, fræðslu og framförum í anda Upplýsingastefnunnar. Það fyrsta sem hann fékk útgefið var skýrsla sem hét því stutta nafni Korte Beretninger om nogle Forsøk til Landvæsenets og især Hauge-Dyrkningens Forbedring i Island. Begynte på en præstegård vester på landet og fortsatte samme steds i næstleden 9 ár, i de få fra embedsforretninger ledige timer. Gjort på egen bekostning, med liden formue og meget arbejde, men med fornøjet sind og en overflødig Guds velsignelse. Þetta var skýrsla um landbúnaðarframkvæmdir hans á árunum 1757 til 1764 og fékk Björn þetta útgefið með hjálp Eggerts Ólafssonar fyrrverandi skólabróður síns og mágs.

Síðari verk Björns eru þó frægari. Frægast þeirra er ritið Atli sem er leiðarvísir fyrir bændur um rétta breytni í búskaparmálum. Nánast allt ritið er á samtalsformi eins og tíðkaðist um kennslubækur fyrr á tímum. Þar ræða saman hinn fávísi Atli og einstaklingur sem einungis er titlaður bóndi. Atli er að stíga sín fyrstu skref í búskap og fræðir reynslumikill bóndinn hann um hvernig reka skuli gott bú. Ritið var fyrst gefið út 1780 og þótti það gott að fyrir tilstilli danakonugs var því útbýtt endurgjaldslaust til íslenskra bænda. Þótti ritið hin mesta skemmtun og var ekki óalengt að lesið væri upp úr því á kvöldvökum allt fram á 19. öld.

Björn samdi einnig ritið Arnbjörgu sem er hliðstætt Atla. Það kom fyrst út 1783 og í því er konum kennt hvernig styðja skuli manninn sinn við bústörfin, hvernig eigi að ala upp börnin og ýmislegt fleira sem lýtur að innanbæjarbúsýslu. Til viðbótar skrifaði hann ýmis rit á sviði grasafræði svo sem bókina Grasnytjar auk þess sem hann aðstoðaði Eggert Ólafsson við gerð Matjurtabókarinnar.

Eftir Björn liggur að auki eitt stórt rit sem er ekki á sviði búskapar og garðyrkju. Það er bókin Lexicon Islandico-Latino-Danicum sem er íslensk orðabók með latneskum þýðingum. Björn vann að ritinu í samfleytt 15 ár og árið 1786 sendi hann það til Kaupmannahafnar til prentunar. Það var þó ekki fyrr en 1814 sem ritið kom fyrst út en þá höfðu fleiri merkir menn endurbætt og aukið ritið.

Afkastamikið ljóðskáld var Björn ekki en nokkur kvæði orti hann þó. Kvæðið Ævitíminn eyðist er merkast þeirra. Þar upplýsir Björn þá skoðun sína að jarðlífið sé einungis tímabundin gisting. Á meðan á gistingunni stendur eigi menn strita og leggja hart að sér svo afkomendurnir og næstu gestir jarðarinnar geti notið erfiðis forfeðranna.

Björn og gapastokkurinn

[breyta | breyta frumkóða]

Sagt er að séra Björn hafi verið bæði siðavandur og refsingasamur og setti sóknarbörn sín stundum í gapastokk. Vinnumaður var þar í sókninni er Guðbrandur hét, fremur fávís. Var það eitt sinn er hann bar húsbónda sinn af skipi, er þeir komu úr fiskróðri, að hann sagði þá er hann setti hann af sér, því að honum þótti byrðin þung: „Mikil bölvuð þyngsli eru á líkamanum á þér, Jón“! Þá er bóndi kom til kirkju næsta sunnudag á eftir, sagði hann prófasti frá þessu, en honum þóttu ummælin svo óhæfileg, að hann lét setja Guðbrand í gapastokk um messuna fyrir þetta.

Björn og tröllriðnir hestar

[breyta | breyta frumkóða]

Séra Björn getur þess í Grasnytjum sínum að hestar þeir séu nefndir tröllriðnir sem detta niður án orsaka, og bætir því við, að ef tófugras sé lagt undir tungurætur á tröllriðnum hestum, þá batni þeim þegar.

Wikisource
Wikisource
Á Wikiheimild er að finna verk eftir eða um: