Döggskór

Döggskór eru nokkurskonar hettur neðst á sverðslíðrum, bæði til skrauts og varnar. Þeir geta verið úr málmi, leðri, plasti eða gúmmíi. Döggskór úr málmi eru oft fagurlega skreyttir og má rekja sögu þeirra aftur á bronsöld.

Döggskór frá víkingaöld á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Sjö döggskór hafa fundist á Íslandi og teljast allir vera frá 9. og 10. öld. Einn þeirra fannst í kumli á Hafurbjarnarstöðum, einn á bæjarrústum á Hrísheimum í Mývatnssveit en hinir fimm eru lausafundir, frá Ljárskógum í Dölum, Kirkjubólsdal í Arnarfirði, Tannstaðabakka í Hrútafirði, Lundi í Fnjóskadal og óþekktum stað á Vestfjörðum.[1]

Allir döggskórnir sem fundist hafa hér á landi eru úr bronsi. Þeir eru á bilinu 5,7 – 8,0 cm á hæð og allir skreyttir. Á þremur er skreytið í svokölluðum Jalangursstíl, tveir í Borróstíl og tveir með ótilgreindum en líkum stíl og taldi Kristján Eldjárn þann stíl vera íslenska nýmyndun leidda af Borróstíl.[2]

Á víkingaöld voru döggskór, eins og þeir sem fundist hafa á Íslandi, algengastir í kringum Eystrasalt en mjög fáir döggskór hafa t.d. fundist í Noregi. Á Íslandi er hlutfall sverða og döggskóa um það bil 3:1 en í Noregi er það nálægt 400:1. Döggskórnir eru því til marks um að þessi austræna tíska hafi fest rætur á Íslandi. [3]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Kristján Eldjárn. 2000: 331-333; Batey 2003: 12
  2. Kristján Eldjárn. 2000:331-337.
  3. sbr. Kristján Eldjárn. 2000: 333-337.