Frostþurrkun er ný aðferð við að búa lík til greftrunar sem er ætlað að koma í stað líkbrennslu eða hefðbundinnar greftrunar í kistu. Aðferðin hefur það að markmiði að auðvelda náttúrulegt niðurbrot líkamsleifanna og þess vegna má til að mynda ekki smyrja líkið. (Með tilliti til aðstæðna á Íslandi er þess reyndar að geta að vart er hægt að segja að líksmurning tíðkist hér.)[1]
Þeir, sem standa að aðferðinni, lýsa henni þannig að líkið sé fyrst kælt niður í –18°C og þar næst kælt enn frekar með fljótandi köfnunarefni. Við þetta verði líkaminn mjög stökkur og nægi þá að beita fremur litlum titringi til að sundra honum í smáar agnir. Duftið, sem þannig verði til, sé flutt í lofttæmt rými þannig að unnt sé að láta það, sem eftir er af raka, gufa upp. Loks fari duftið í gegnum málmskilju til þess að fjarlægja ígræði, svo sem hjartagangráða, og kvikasilfur úr tannfyllingum.
Að þessu loknu er fyrirhugað að koma duftinu fyrir í öskju úr maíssterkju. Það er þá lyktarlaust og þolir langa geymslu þar sem allt vatn hefur verið fjarlægt.[2] Líkamsleifarnar vega í þessu ástandi aðeins um 30% af upphaflegri þyngd, þar eð vatn er hér um bil 70% af líkamsþyngd mannsins. Þetta er þó nokkru meira en verður eftir af líkamanum við líkbrennslu.
Greftrunin á að fara fram með þeim hætti að askjan með duftinu sé lögð grunnt í lífrænan jarðveg og verður hvorttveggja þá að mold á 6–12 mánuðum.
Frostþurrkun líkamsleifa er enn á tilraunastigi en stefnt er að því að unnt verði að nota hana í tengslum við útfarir áður en langt um líður. Í Suður-Kóreu er hún þegar orðin lögleg.[3] Aðferðin er þó umdeild og bíður enn fullrar viðurkenningar í upphafslandinu, Svíþjóð. Þar hafa m.a. komið fram efasemdir um virkni aðferðarinnar eins og henni er lýst, enda hafi engar sannanir verið lagðar fram fyrir henni opinberlega.[4]