Þegar félagslegur ábati er hámarkaður er talað um félagslega skilvirkni. Hún fæst í því jafnvægi þegar félagslegur jaðarábati er jafn félagslegum jaðarkostnaði. Þegar jaðarábatinn er hærri en jaðarkostnaðurinn, eykst félagsleg velferð samfélagsins í heild.
Ákvarðanir um nýtingu almannagæða og auðlinda jarðar hafa sömu niðurstöðu fyrir alla. Fólk hefur misjöfn gildi, smekk og tilfinningar til ákvarðana og þannig getur auðveldlega komið til átaka um hvernig nýtingunni skuli háttað. Félagsleg skilvirkni hverrar nýtingar er því greind með því að bera saman félagslegan ábata og félagslegan kostnað sem hún hefur í för með sér.
Áhrif sem verða í kjölfar nýtingar á auðlindum geta, vitandi eða óafvitandi, skollið á þriðja aðila sem hafði ekkert með ákvörðunina að gera. Slík úthrif getur verið erfitt að mæla í reynd en þau eru skoðuð með tilliti til framtíðar sem og nútíðar. Úthrifin geta verið bæði jákvæð og neikvæð. Hámörkun ábata er ekki alltaf sú leið sem réttlátast er að fara hverju sinni því ábatanum getur verið gríðarlega misskipt innan samfélagsins, þrátt fyrir að hann hafi jákvæð áhrif á samfélagið í heild.[1]