Gettu betur | |
---|---|
Tegund | Spurningaþáttur |
Þróun | Andrés Indriðason |
Leikstjóri | Helgi Jóhannesson |
Kynnir | Jón Gústafsson & Þorgeir Ástvaldsson (1986) Hermann Gunnarsson (1987) Vernharður Linnet (1988-1989) Steinunn Sigurðardóttir (1990) Stefán Jón Hafstein (1991-1994) Ómar Ragnarsson (1995) Davíð Þór Jónsson (1996-1998) Logi Bergmann Eiðsson (1999-2005) Sigmar Guðmundsson (2006-2008) Eva María Jónsdóttir (2009-2010) Edda Hermannsdóttir (2011-2013) Björn Bragi Arnarsson (2014-2018) Kristjana Arnarsdóttir (2019-2023) Kristinn Óli Haraldsson (2024-) |
Höfundur stefs | Magnús Kjartansson |
Framleiðsla | |
Framleiðandi | Andrés Indriðason (1991–2012); Elín Sveinsdóttir (2013–) |
Staðsetning | RÚV, Reykjavík, Íslandi |
Lengd þáttar | Rúmlega 60 mínútur |
Útsending | |
Upprunaleg sjónvarpsstöð | RÚV |
Sýnt | 1986 – |
Tenglar | |
Vefsíða |
Gettu betur er spurningakeppni íslenskra framhaldsskóla sem Ríkisútvarpið stendur fyrir árlega. Hver framhaldsskóli getur sent eitt lið í keppnina, sem skipað er þremur nemendum við skólann. Undankeppni fer fram í útvarpi og að henni lokinni halda átta lið áfram í útsláttarkeppni í sjónvarpinu.
Keppnin var fyrst haldin árið 1986 og hefur farið fram árlega síðan þá. Keppnin hefur verið einn vinsælasti dagskrárliður Ríkisútvarpsins frá upphafi. Umsjónarmaður keppninnar frá 1991 til ársins 2012 var Andrés Indriðason og á eftir honum tók Elín Sveinsdóttir við því hlutverki. Núverandi umsjónarmaður keppninnar er Ragnar Eyþórsson.
Forkeppnin hefst í janúar ár hvert og fer fram í útvarpi. Að tveimur umferðum loknum eru átta lið eftir og heldur keppnin áfram í sjónvarpssal. Árið 2009 var metár í sögu Gettu betur. Þá tók alls 31 skóli þátt og hafa þeir aldrei verið fleiri.
Alls hafa ellefu skólar unnið keppnina og er Menntaskólinn í Reykjavík sá sigursælasti. Næst á eftir koma Menntaskólinn á Akureyri og Kvennaskólinn í Reykjavík með þrjá sigra hvor. Því næst eru Menntaskólinn við Hamrahlíð og Verzlunarskóli Íslands með tvo sigra hvor. Eru þetta einu skólarnir sem hafa unnið keppnina oftar en einu sinni.
Spyrill stendur fyrir miðju og ber upp spurningarnar. Oft er starf spyrils í höndum einhvers þjóðþekkts einstaklings. Dómarinn semur spurningarnar og dæmir svörin. Frá upphafi hefur stigavörður setið á vinstri hönd dómara og talið stigin. Fyrir keppnina árið 2012 var ákveðið að leggja niður stigavarðarembættið og hafa í stað þess tvo dómara. Árið 2013 var ákvörðun tekin um að kynjakvóti skyldi settur og tók hann í gildi árið 2015.
Fyrir keppnina 2020 varð sérkeppni sem nefndist Gettu Betur - Stjörnustríð. Þetta gaf góða raun og var endurtekið árið eftir fyrir sjónvarpskeppnina.
Gettu betur fór ekki varhluta af Covid-19 faraldrinum. Allt stefndi í að úrslitin 2020 yrðu haldin án áhorfenda, en svo fór að hvort lið fékk að hafa nokkra í salnum. Útvarpshluti keppninnar 2021 fór ekki fram á Markúsartorgi, eins og venjan hefur verið árin á undan, heldur í hljóðveri 12. Vegna fjöldatakmarkanna var þessi hluti keppninnar áhorfendalaus.