Grænjaxlinn

Kápa dönsku útgáfu bókarinnar.

Grænjaxlinn (franska: Le Pied-tendre) eftir Morris (Maurice de Bevere) og René Goscinny er 33. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1968, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Sval (f. Le Journal de Spirou) á árunum 1967-68.

Söguþráður

[breyta | breyta frumkóða]

Baldur Badmington, enskur hefðarmaður, kemur til villta vestursins ásamt einkaþjóni sínum Jósepi að vitja arfs. Arfurinn er búgarður á stórri jörð í nágrenni Þurrkverkarbæjar og ætlar Baldur að setjast þar að og halda áfram búskap. Þetta fellur í grýttan jarðveg hjá eiganda nágrannajarðar, Gúma Gikks, sem vill ólmur komast yfir jörð nágranna síns. Gúmi ákveður því að veita Baldri óblíðar móttökur að hætti villta vestursins og reynir að spilla fyrir áformum hans. Þegar tilraunir Gúma renna út í sandinn ákveður hann að setja á svið eigin dauða í því skyni að koma sök á Baldur og Lukku Láka og fá þá dæmda fyrir morð. Lukku Láki og Baldur reyna að komast undan, en eru gripnir af skerfaranum og liði hans. Eftir sýndarréttarhöld á kránni eru Lukku Láki og Baldur dæmdir til hengingar, en Láka tekst að flýja með því að stökkva út um glugga á bak Léttfeta. Lukku Láka tekst að fletta ofan af ráðabruggi Gúma og koma í veg fyrir á síðustu stundu að Baldur verði hengdur. Baldur skorar þá á Gúma að gera út um málið í einvígi að breskum sið.

Fróðleiksmolar

[breyta | breyta frumkóða]
  • Í sögunni um Grænjaxlinn heldur Goscinny áfram að gera góðlátlegt grín að Bretum og breskri menningu með svipuðum hætti og í Ástríki í Bretlandi sem kom út tveimur árum fyrr. Brandarinn um volga, breska bjórinn gengur t.d. aftur þegar Baldur og Jósep fara á krána. Þeir félagar áttu eftir að birtast aftur síðar í bókinni Le Klondike sem kom út árið 1996.
  • Innblástur sögunnar er kvikmyndin Ruggles of Red Gap frá árinu 1935 sem fjallar um dvöl bresks einkaþjóns í villta vestrinu.
  • Albert Uderzo, sem teiknaði sögurnar um Ástrík gallvaska, var sannfærður um að Baldur Badmington væri skopstæling á sér. Morris neitaði því alla tíð.
  • Bókin um Grænjaxlinn var gefin út af Dargaud útgáfufélaginu þrátt fyrir að sagan hafi áður birst í teiknimyndablaðinu Sval sem keppinauturinn Dupuis gaf út, enda yfirsást stjórnendum Dupuis að tryggja sér einkarétt á útgáfu sögunnar.
  • Í eftirmála íslensku útgáfu bókarinnar kemur fram að sagan af Grænjaxlinum sé oft ásamt Póstvagninum talin hátindurinn i samstarfi þeirra Morris og Goscinny.

Íslensk útgáfa

[breyta | breyta frumkóða]

Grænjaxlinn var gefin út af Fjölva árið 1980 í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen. Þetta er 26. bókin í íslensku ritröðinni.