Guli baulari (Larimichthys polyactis), er af baulfiskaætt. Hann er talinn mikill matfiskur í Kína, Japan og Kóreu en er annars lítt þekktur. Eitt einkenna baulfiska er að þeir eru með þroskaðan sundmaga sem sumar tegundir geta notað til að gefa frá sér hljóð, einskonar baul. Þá hleypa þeir lofti í gegnum sundmagann. Þetta gera þeir meðal annars til þess að tvístrast ekki frá torfunni.[1]
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
| ||||||||||||||
Tvínefni | ||||||||||||||
Larimichthys polyactis (Bleeker, 1877) | ||||||||||||||
Samheiti | ||||||||||||||
Pseudosciaena polyactis Bleeker, 1877 |
Guli baulari er langvaxinn og hliðflatur, þunnvaxinn. Munnurinn er stór miðað við búk og augu stór, neðri kjálki er örlítið útstæður og tennur í einni röð í neðri kjálka. Engar tennur eru í efri kjálka. Hann er með rákir á höfði. Tálknlok eru svört. Bakuggi er langur og tvískiptur, fremri er með 10-11 broddgeisla og aftari með 31-36 liðgeisla. Raufaruggi er vanalega með 2 broddgeisla og 9-10 liðgeisla. Kviðuggi er ekki svartur. Ferskur fiskur er með gulan-appelsínugulan blæ á kviðnum og grár á baki. Rákin nær frá haus að sporði. Hængurinn getur orðið 40 cm langur en meðallengd er 30 cm.[2]
Kvarnir eru skynfæri fiska og hjá gula baulara eru þær notaðar í kínverskar lækningar.[3]
Heimkynni gula baulara er við strendur Kínahafs, Gulahafs, í Japanshafi og í kringum Kóreusund. Hann heldur sig við botninn á grunnsævi, fyrir ofan 120 metra þar sem er sandur og leðja á botninum. Hann getur álpast upp í árósa en ísalt vatn er ekki hans kjöraðstæður.[4]
Hann étur einna helst rækjur, krabbadýr, dýrasvif og smáfiska. Hrygningatími gula baulara er frá mars til júní og færir hann sig þá í aðeins hlýrri sjó í sunnanverðu Kyrrahafi til að hrygna. Fjöldi eggja í hverri hrygningu er frá 30.000-70.000 egg.[5]
Guli baulari er veiddur í botnvörpu, í lagnet og með handveiðarfærum. Hann er nánast eingöngu veiddur af Kínverjum en þó er lítill hluti heimsafla veiddur af Tansaníu. Árið 1999 var Kína með 308.907 tonn og Tansanía með 13.490 tonn af veiddum afla. Stofninn var hætt kominn vegna ofveiði uppúr 1970 en hefur náð sér á strik og voru 389.037 tonn veidd árið 2016.[6] Hann þykir góður matfiskur í Kína, Japan og Kóreu og er bæði seldur ferskur og saltaður.