Heimspeki og spegill náttúrunnar (e. Philosophy and the Mirror of Nature) er umdeilt rit um heimspeki eftir bandaríska heimspekinginn Richard Rorty. Það kom fyrst út árið 1979.
Í ritinu reynir Rorty að „leysa upp“ heimspekileg vandamál (fremur en að leysa þau) með því að sýna að þau séu gervivandamál, sem eru einungis til í ákveðnum málaleikjum innan rökgreiningarheimspekinnar. Í anda gagnhyggjunnar segir Rorty að heimspekin verði að komast undan þessum gervivandamálum ætli hún sér að gera gagn.
Megin kenning Rortys er sú að heimspekin hafi um of reitt sig á skynhyggju og samsvörunarkenningu um sannleikann í þeirri von að reynsal okkar eða tungumál geti speglað raunveruleikann. Að þessu leyti byggir Rorty á verkum annarra enskumælandi heimspekinga á borð við Willard Van Orman Quine, Wilfrid Sellars og Donald Davidson. Rorty velur að hafna greinarmuninum á hlutlægni og huglægni og kýs heldur að halda fram einfaldari kenningu um sannleikann, sem kveður á um að sannleikur sé einskonar heiðursnafnbót sem fólk sæmir fullyrðingar sem samræmast því sem það sjálft vill segja um viðfangsefnið.