Hreiðars þáttur

Hreiðars þáttur heimska er stutt saga eða þáttur, sem telst til Íslendingaþátta. Þar segir frá Hreiðari Þorgrímssyni, seinþroska Íslendingi, sem fer til Noregs 1046-1047, þegar þeir fóru sameiginlega með völd, Magnús góði og Haraldur harðráði. Hreiðar vinnur hylli Magnúsar með skoplegum tiltækjum sínum, en vekur reiði Haralds, þegar hann hæðist að honum og drepur hirðmann hans. Magnús konungur kom honum þá til Íslands. Hann settist að á Hreiðarsstöðum í Svarfaðardal og varð nýtur maður.

Hreiðars þáttur er varðveittur í Morkinskinnu, og talsvert umskrifaður í Huldu-Hrokkinskinnu, en þátturinn gæti upphaflega hafa verið sjálfstætt rit. Hann er talinn með elstu Íslendingaþáttum, gæti verið saminn skömmu eftir 1200, er örugglega eldri en 1250. Þó að þátturinn sé vel saminn og mannlýsingar góðar, getur frásögnin af samskiptum Hreiðars og Haraldar harðráða vart staðist, og er þátturinn því talinn vera skáldskapur að mestu leyti.

Hreiðars þáttur var fyrst prentaður í 6. bindi Fornmanna sagna, 1831, og var textinn þar tekinn úr Huldu-Hrokkinskinnu.

Texti þáttarins samkvæmt Morkinskinnu var fyrst prentaður 1867, í útgáfu C. R. Ungers.

Sjá einnig Íslensk fornrit X, þar sem Björn Sigfússon fjallar nokkuð um þáttinn.

  • Björn Sigfússon (útg.): Íslensk fornrit X, bls. xci-xciv.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Hreiðars þáttr“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 30. mars 2008.