64°45′31″N 21°35′13″V / 64.75861°N 21.58694°V
Hreðavatn er stöðuvatn í neðanverðum Norðurárdal í Borgarbyggð. Við vatnið stendur samnefndur bær. Í grennd Hreðavatns er laxveiðiáin Norðurá og fossarnir Laxfoss og Glanni, Grábrókarhraun og Grábrókargígar. Í vatninu er silungsveiði. Hreðavatnsskáli, byggður (1933), var fjölsóttur gisti- og áningar- og veitingastaður ferðamanna um áratugaskeið. Háskólinn á Bifröst, áður Samvinnuskólinn, með tilheyrandi byggð hefur verið starfræktur í landi Hreðavatns frá 1955. 'Hreða' er hér einkum talið skilt 'hraði' og 'hræða' og 'hríð' og talið merkja ófrið af einhverri sort.
Nokkrir gróðri vaxnir hólmar með kjarrlendi og blómum eru í Hreðavatni og heita þeir Hrísey og Álftahólmi. Í landi Hreðavatns þar sem er eyðibýlið Hreðavatnssel, er sunnan undir Þórisengismúla að finna surtarbrand sem um skeið var unninn þar til eldsneytis. Surtarbrandsnámið gekk ekki sem skyldi og hrundu námagöngin á endanum saman. Þá hafa fundist þar jarðvegsleifar með steingervingum af jurtaleifum, svo sem laufblöðum trjáa, sem gefa til kynna að fyrir nokkuð löngu síðan hafi vaxið á Íslandi gróður, sem nú er helst að finna í sunnanverðri Mið-Evrópu. Í austurhlíðum Þorvaldsdals skammt frá Hreðavatnsseli, eru enn fremur ljóslituð jarðlög, botnlög stöðuvatns sem þar hefur verið fyrir um sjö milljónum ára. Þá hafa í landi Jafnaskarðs verið ræktaðar og gróðursettar innan skógræktargirðingar, ýmsar tegundir barrtrjáa sem dafna þar vel; þ.e. Jafnaskarðsskógur.