Hulda-Hrokkinskinna

Hulda-Hrokkinskinna er sérstök gerð konungasagna, sem segir sögu Noregskonunga frá Magnúsi góða, sem tók við völdum 1035, til Magnúsar Erlingssonar, sem dó 1177.

Talið er að sagan sé rituð um eða eftir 1280, og að hún sé byggð á Heimskringlu Snorra Sturlusonar, en með viðaukum úr sérstakri gerð Morkinskinnu sem nú er glötuð. Hulda-Hrokkinskinna er er einkum gagnleg til samanburðar, þar sem handrit Morkinskinnu er óheilt. Í sögunni eru átta dróttkvæðar vísur, sem eru hvergi til annars staðar, eftir skáldin Arnór Þórðarson, Þjóðólf Arnórsson, Bölverk Arnórsson og Þórarin stuttfeld.

Nokkrir eldri fræðimenn töldu að Heimskringla væri byggð á Huldu-Hrokkinskinnu, frekar en að því væri öfugt farið. Þessi kenning hefur nýlega verið endurvakin með þeim rökum að hún leiði af sér einfaldari ættarskrá handrita af þessum sögum.

Sagan er varðveitt í tveimur handritum:

Hulda eða AM 66 fol. er íslenskt handrit frá seinni hluta 14. aldar. Í því eru nú 142 blöð, en fyrsta kverið, þ.e. fyrstu 6 blöðin, eru glötuð. Nafnið Hulda kom upp í Borgarfirði, þegar menn voru að pukrast þar með bókina eftir miðja 17. öld. Hulda hefur betri texta en Hrokkinskinna.

Hrokkinskinna eða GKS 1010 fol. er íslenskt handrit frá upphafi 15. aldar. Texti Huldu-Hrokkinskinnu er á blöðum 1-91. Á síðustu fjórum blöðunum, sem bætt var við á 16. öld, er Hemings þáttur Áslákssonar, að vísu óheill. Þormóður Torfason gaf handritinu þetta nafn, af því skinnið í blöðunum var hrukkótt vegna rakaskemmda.

Í Huldu-Hrokkinskinnu eru varðveittir nokkrir Íslendingaþættir, sem flestir eru einnig í Morkinskinnu:

Texti Huldu-Hrokkinskinnu var prentaður í 6. og 7. bindi Fornmanna sagna, 1831 og 1832. Danski fræðimaðurinn Jonna Louis-Jensen hefur rannsakað þessi handrit manna mest, og fjallar doktorsritgerð hennar um þetta efni: Kongesagastudier: Kompilationen Hulda-Hrokkinskinna, prentuð 1977. Hún hafði umsjón með ljósprentaðri útgáfu Huldu, 1968 (Early Icelandic Manuscripts in Facsimile VIII). Hún vinnur nú að nýrri fræðilegri útgáfu á Huldu-Hrokkinskinnu, sem er væntanleg innan tíðar á vegum Árnasafns í Kaupmannahöfn.

  • Jón Helgason: Handritaspjall. Reykjavík 1958, 62-63.
  • Jonna Louis-Jensen. Kongesagastudier: Kompilationen Hulda-Hrokkinskinna. København 1977. ISBN 87-87504-44-8.
  • Theodore M. Andersson og Kari Ellen Gade (þýðendur). Morkinskinna: The Earliest Icelandic Chronicle of the Norwegian Kings (1030—1157). Cornell 2000. ISBN 0-8014-3694-X.
  • Alan J. Berger. 'Heimskringla is an abbreviation of Hulda-Hrokkinskinna'. Í Arkiv för nordisk filologi 2001:65-9. ISSN 0066-7668.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Hulda-Hrokkinskinna“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 28. mars 2008.