Ingigerður Haraldsdóttir (1046 – eftir 1118) var norsk konungsdóttir, drottning Danmerkur 1086-1095 og síðan drottning Svíþjóðar frá 1105-1118.
Ingigerður var dóttir Haraldar harðráða Noregskonungs og Ellisifjar af Kænugarði. Hún hét eftir ömmu sinni, Ingigerði dóttur Ólafs skotkonungs. Ekki er vitað hvenær hún giftist fyrri manni sínum, Ólafi syni Sveins Ástríðarsonar Danakonungs. Hann varð konungur eftir að Knútur helgi bróðir hans var drepinn 1186 og hefur Ólafur jafnvel verið grunaður um að hafa staðið á bak við morðið. Synir þeirra dóu ungir og Eiríkur góði bróðir Ólafs erfði krúnuna.
Ingigerður hélt þá til Svíþjóðar og giftist Filippusi syni Hallsteins konungs Steinkelssonar. Hann varð konungur ásamt Inga bróður sínum þegar Ingi eldri, föðurbróðir þeirra, dó árið 1105 og Ingigerður varð þá drottning að nýju. Þau áttu ekki börn svo vitað sé en raunar er nánast ekkert vitað um Filippus og stjórnartíð hans. Hann dó árið 1118 og þá var Ingigerður enn á lífi.