Johann Galletti

Johann Georg August Galletti

Johann Georg August Galletti (19. ágúst 1750 - 16. mars 1828) var þýskur sagnfræðingur og landafræðingur. Hann var menntaskólakennari í Gotha og kenndi auk áðurnefnda fræða, latínu og náttúrufræði og skrifaði kennslubækur. Ein þeirra hefur birst á íslensku, en hún nefnist: Kennslubók í sagnafræðinni fyrir viðvaninga.

Johann Galletti er þó ekki þekktur fyrir fræðimennsku sína. Friedrich Schiller sagði t.d. um hann að hann væri langdregnasti og andlausasti sagnfræðingur sem nokkurntíma hafi lifað. Á meðan hann var ofanjarðar var hann þó einna þekktastur fyrir hvað hann var utan við sig og var í raun nokkurskonar holdtekja hins viðutan prófessors. Núna er hann þó þekktastur fyrir fræðarugl en af því úir og grúir í bókum hans. Galletti skrifaði og birti ófáar fræðibækur, og oft í mörgum bindum, enda lifði hann fyrir að skrifa. Fræðaruglið sem leynist í bókum hans kalla þjóðverjar Kathederblüten.

Hér eru nokkur dæmi:

  • Eyjarnar í Miðjarðarhafi eru allar stærri eða minni en Sikiley.
  • Þegar Humboldt kleif Chimborazo-fjall varð loftið svo þunnt að hann gat ekki lesið án þess að nota gleraugu.
  • Angórukanínan er eitt furðulegasta og gagnlegasta skordýrið.
  • Gotha er ekki mikið lengra frá Erfurt en Erfurt er frá Gotha.
  • Það er heimskulegt að leggja það í vana sinn að lesa í rúminu. Það mætti nefna mörg dæmi þess að menn hafi sofnað út frá bók við logandi kerti, og vaknað næsta dag dauðir.
  • Eftir bardagann við Leipzig mátti sjá hesta með þrjá, fjóra og jafnvel fleiri fætur skotna undan sér á hlaupum um nærliggjandi sveitir.
  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.