Karluk

Ljósmynd af Karluk föstu í ís í ágúst árið 1913.

Karluk var 39 metra löng brigantína sem sökk í Norður-Íshafi þann 11. janúar 1914. Skipið er helst af öllu þekkt fyrir sinn síðasta leiðangur sem lá gegnum Beringssund inn á Norður-Íshafið þar sem það fraus fast og rak með ísnum í fjóra mánuði áður en það brotnaði og sökk. Þeir 25 menn sem voru í leiðangrinum héldu eftir ísnum fótgangandi og á hundasleðum og komu loks að Wrangel-eyju. Hluti hópsins hélt áfram til Síberíu yfir 1100 km leið undir stjórn Robert Bartletts og gerðu á endanum út björgunarleiðangur frá Alaska. Í september 1914, þrettán mánuðum eftir að skipið hafði frosið fast, var mönnunum bjargað, en þá höfðu að minnsta kosti ellefu manns látist úr vosbúð, næringaskorti og fleiru.

Vilhjálmur Stefánsson landkönnuður stjórnaði leiðangrinum sem skipið var í, en tilgangur hans var að kanna Norðurheimskautssvæðið. Þegar skipið festist í ísnum yfirgaf Vilhjálmur það og hélt til austurs að Inúítabyggðum í Norður-Kanada þar sem hann var við rannsóknir næstu fimm árin. Sem upphaflegur stjórnandi leiðangursins var hann harðlega gagnrýndur í mörg ár á eftir fyrir að hafa yfirgefið skipið á ögurstundu.

  Þessi skipagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.