Katsuobushi (japanska: 鰹節), líka þekkt sem bonítóflögur eða okaka (おかか), er kjöt af randatúnfiski sem hefur verið hægsoðið, reykt með sérstakri aðferð og síðan gerjað og þurrkað með aðstoð sérstakrar myglu. Þegar kjötið hefur verið verkað þannig verður það þétt og hart, og hægt að hefla af því örþunnar flögur sem notaðar eru á ýmsan hátt í japanskri matargerð.
Ásamt þurrkuðum þara, kombu, er katsuobushi aðalinnihaldið í dashi sem er algengur súpugrunnur.