Konungahella

Konungahella. Myndskreyting við Sögu Magnúsar blinda og Haraldar gilla, útg. 1890.

Konungahella var miðaldabær í Bohúsléni sem áður var hluti af Noregi, en hefur tilheyrt Svíþjóð frá árinu 1658. Á 12. öld var bærinn stundum aðalaðsetur Noregskonunga og helsta valdamiðstöð ríkisins.

Konungahella var rétt vestan við þar sem nú er sænski bærinn Kungälv. Bærinn var áður rétt við suðurlandamæri Noregs og því hernaðarlega mikilvægur, auk þess sem þar var blómlegur verslunarstaður. Konungar Norðurlanda hittust þar oft þegar semja þurfti frið eða semja um hjúskap eða annað. Sigurður Jórsalafari reisti þar kastala og gerði bæinn að höfuðstað sínum. Vegur Konungahellu var mestur á fyrsta þriðjungi 12. aldar. Árið 1135 réðust Vindar á Konungahellu, brenndu kastalann og rændu bæinn, og segir Snorri Sturluson að Konungahella hafi aldrei náð að rétta almennilega úr kútnum eftir það og Björgvin tók við höfuðstaðarhlutverkinu. Bærinn var þó áfram mjög mikilvægur vegna legu sinnar, fram á 14. öld að minnta kosti.

Jón Loftsson í Odda ólst upp í Konungahellu til ellefu ára aldurs.