Kraumur er sjálfstæður sjóður og starfsemi á vegum Auroru velgerðasjóðs sem hefur það meginhlutverk að efla íslenskt tónlistarlíf, fyrst og fremst með stuðningi við unga listamenn.
Markmið Kraums er að styrkja stöðu ungra tónlistarmanna á Íslandi með beinum styrkjum, faglegri aðstoð og samstarfi af ýmsu tagi. Stuðningur og verkefni sjóðsins eru skilgreind með tilheyrandi samningi og fjárhags- og tímaáætlun. Framkvæmdastjóri Kraums er listamönnum til halds og trausts og annast tengsl sjóðsins við samstarfsaðila og fylgir því eftir að markmiðum samstarfs og stuðnings sé náð.
Kraumur notast ekki við umsóknareyðublöð eða formleg umsóknarferli. Umsóknir og fyrirspurnir er varða styrki og samstarf eru afgreiddar af framkvæmdastjóra sjóðsins. Unnt er að sækja um með tilgreind verkefni en einnig getur framkvæmdastjóri haft frumkvæði að samningum við listamenn. Framkvæmdastjóri gefur nánari upplýsingar.
Aurora velgerðasjóðurinn ákvað þann 23. janúar 2008 að stofna sjálfstæðan sjóð til stuðnings íslensku tónlistarlífi og veita 20 milljónir króna sem stofnfé sjóðsins. Ráðgert að Aurora leggi sjóðnum til 15 milljónir króna á árinu 2009 og annað eins árið 2010, alls 50 milljónir króna á árunum 2008-2010.
Í rökstuðningi sjóðsstjórnar Auroru segir m.a.;
„Íslenskt tónlistarlíf er sérstakt um margt, einkum vegna áberandi krafts og áræðis sem einkennir tónlistarfólk af yngri kynslóðinni. Sykurmolarnir og Björk ruddu braut í tónlistarútrás sem á sér enga hliðstæðu. Fjöldamargir tónlistarmenn fetuðu í fótspor þeirra með undraverðum árangri og nú er tónlistarlíf á Íslandi orðinn einn sterkasti þátturinn í ímynd lands og þjóðar út á við. Óvenjulegt samspil dægurtónlistar og sígildrar tónlistar getur orðið drifkraftur frekari landvinninga. Stuðningur við unga tónlistarmenn, til verkefna og samstarfs af ýmsu tagi, skýtur styrkari stoðum undir þennan mikilvæga vaxtarbrodd í íslensku menningarlífi.“[1]
Formaður stjórnar Kraums er Þórunn Sigurðardóttir, en meðstjórnendur Ásmundur Jónsson og Pétur Grétarsson. Framkvæmdastjóri er Eldar Ástþórsson.
Í fagráði Kraums eiga sæti Björk Guðmundsdóttir tónlistarmaður, Anna Hildur Hildibrandsdóttir, framkvæmdarstjóri Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN), Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Árni Matthíasson, blaðamaður á Morgunblaðinu, Mist Þorkelsdóttir, deildarforseti Tónlistardeildar Listaháskóla Íslands, Kjartan Sveinsson, hljómborðsleikari Sigur Rósar og SJÓN (Sigurjón Birgir Sigurðsson), rithöfundur.
Kraumur rekur skrifstofu í miðborg Reykjavíkur þar sem unnið er að því að „styrkja stöðu ungra tónlistarmanna á Íslandi með beinum styrkjum, faglegri aðstoð og samstarfi af ýmsu tagi.“
Á fyrsta starfsári sínu, árið 2008, hefur Kraumur unnið með rúmlega 20 listamönnum og hljómsveitum. Má þar nefna Mugison, Víking Heiðar Ólafsson, Amiina, FM Belfast, Ólöfu Arnalds og Dikta. Verkefni listamannanna hafa verið af ýmsum toga, allt frá tónleikahaldi og kynningu á innlendum og erlendum vettvangi til plötugerðar.[2] Kraumur hefur jafnframt ýtt úr vör eigin verkefnum á borð við Innrásina og Kraumsverðlaunin.
Kraumur hefur stutt og staðið fyrir þáttagerð um íslenska tónlist og tónlistarmenn á YouTube og annars staðar á internetinu.[3] Sjóðurinn hefur jafnframt unnið með ungum listamönnum að skipulagningu tónleika í Fríkirkjunni, Íslensku óperunni og æfingahúsnæði nokkurra hljómsveita að Smiðjustíg 4A. [4] Kraumur og Aurora velgerðarsjóður lögðu Náttúru-tónleikum Björk og Sigur Rós þann 28. júlí í Þvottabrekkunni í Laugardal lið. Á tónleikunum, sem voru öllum opnir án endurgjalds, komu einnig fram Ólöf Arnalds og Ghostigital ásamt Finnboga Péturssyni. Talið er að rúmlega 30 þúsund manns hafi sótt tónleikana, meðan um 2,5 milljónir fylgdust með þeim á netinu. [5]
Vorið 2008 setti Kraumur af stað átak til stuðnings tónleikahaldi innanland sem hlaut nafnið Innrásin. Markmið Innrásarinnar hefur verið að auka við möguleika íslenskra listamanna til tónleikahalds, gefa þeim færi á að koma sér og tónlist sinni á framfæri víðar en á höfuðborgarsvæðinu og efla tónlistarlíf á landsbyggðinni. Rás 2 hefur stutt við Innrásina sem samstarfsaðili, m.a. með því að kynna og auglýsa þá tónleika sem farið hafa fram í tengslum við átakið.
Meðal þeirra hljómsveita og listamanna sem Kraumur hefur stutt og unnið með í tengslum við Innrásina eru; Benni Hemm Hemm, Benny Crespo’s Gang, Bloodgroup, Borko, Dr. Spock, Elfa Rún Kristinsdóttir, Melkorka Ólafsdóttir, Morðingjarnir, Njútón, Reykjavík!, Sign, Skátar og Sykur. [6]
Haustið 2008 hófst undirbúningur plötuverðlauna Kraums, Kraumsverðlaunin, sem boðað hafði verið til í apríl þetta sama ár. Verðlaununum er ætlað að „að kynna og styðja við plötuútgáfu íslenskra hljómsveita og listamanna — og verðlauna og vekja sérstaka athygli á þeim verkum sem skara fram úr í gæðum, metnaði og frumleika“.[7] Kraumsverðlaunin eru ekki bundin ákveðinni tónlistarstefnu og þeim fylgja engir undirflokkar. Ekkert umsóknarferli er fyrir listamenn eða plötuútagáfur, né þátttökugjöld. Verðlaunin hafa ekkert aldurstakmark, en markmið þeirra er engu að síður að einbeita sér að verkum yngri kynslóðar íslenskra hljómsveita og tónlistarmanna.
Dómnefnd Kraumsverðlaunanna er skipuð 15 blaðamönnum, útvarpsmönnum og bloggurum sem hafa áralanga reynslu af að fjalla um og spila íslenska tónlist. Hugmyndafræði verðlaunanna er að sögn framkvæmdastjóra Kraums og hugmyndasmiðs verðlaunanna, Eldars Ástþórssonar, að einhverju leiti sótt til erlendra plötuverðlauna á borð við Mercury Awards í Bretlandi og Shortlist Awards í Bandaríkjunum. [8] Kraumsverðlaunin eru þó frábrugðin að því leiti að fleiri en ein plata hlýtur verðlaunin og verðlaunin eru fólgin í stuðningi Kraums, sem kauðir verðlaunaplöturnar og dreifir þeim á valda aðila innan tónlistarbransans erlendis.[9]
Alls voru 20 breiðskífur tilnefndar til Kraumsverðlaunanna 2008. Af þeim hlutu sex breiðskífur sjálf verðlaunin; Agent Fresco fyrir Lightbulb Universe, FM Belfast fyrir How to Make Friends, Hugi Guðmundsson fyrir Apocrypha, Ísafold fyrir All Sounds to Silence Come, Mammút fyrir Karkara og Retro Stefson fyrir Montaña.