Kyrrahafsansjósa | ||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||||
| ||||||||||||||
Tvínefni | ||||||||||||||
Cetengraulis mysticetus Günther, 1867 |
Kyrrahafsansjósan (Cetengraulis mysticetus) er uppsjávarfiskur sem finnst í Kyrrahafi við strendur Mið- og Suður-Ameríku, allt frá landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó og suður til landamæra Ekvador og Perú. 144 tegundir ansjósa eru þekktar og finnast þær í Atlantshafi, Indlandshafi og Kyrrahafi.[1] Þær þjóðir sem eru með skráðar veiðar á kyrrahafsansjósu eru Panama, Mexíkó, Ekvador og Kólumbía, frá 1950 hefur Panama alltaf verið með mestan afla að undanskildum árunum 1981 og 1997 þegar Ekvador veiddu mest. Raunar voru Panama menn einir um veiðarnar fram til ársins 1970 þegar Kólumbía hóf að skrá einhverjar minniháttar veiðar.[2]
Árlegur heildarafli hefur sveiflast frá um það bil 75 þúsund tonnum og upp fyrir 200 þúsund tonn á milli ára frá því að veiðar urðu nokkuð stórtækar um árið 1976. Meðal skráður heildarafli á árunum 1980 til 2009 var rúm 136 þúsund tonn. Talið er að stofninn sé fullnýttur og á hann er sett árlegt heildaraflamark, hann er ekki talinn vera ofveiddur. Stærstur hluti kyrrahafsansjósuafla er bræddur í fiskimjöl en einnig er stór hluti hennar notaður í beitu, hún er til dæmis mikilvæg beita við veiðar á túnfiski.[3]
Algeng stærð kyrrahafsansjósunnar er 12 cm en þær geta orðið allt að 18 cm að lengd og eins og aðrir síldfiskar er æviskeið þeirra stutt, en þær verða aðeins þriggja ára. Þær halda sig mjög nálægt ströndinni og fara yfirleitt ekki niður fyrir 9 metra dýpi, helst finnast þær þar sem er leðjubotn en síður þar sem sand- eða steinbotn. Hrygningartíminn er frá október fram í janúar þar sem toppurinn er í nóvember og desember, á þeim tíma er hrygningarstoppi beitt til þess að vernda stofninn.
Mikilvægasta fæða tegundarinnar eru kísilþörungar, en einnig finnst ætíð mikil leðja og eitthvað af smáum krabbadýrum í mögum fullorðinna fiska.[4]
Þrjár gerðir veiðarfæra er beitt við veiðar á kyrrahafsansjósu. Eins og áður hefur komið fram er hún veidd í kastnet, það er afkastalítið veiðarfæri sem kastað er með höndum á litlar torfur. Það opnast í loftinu og myndar hring sem síðan lokast þegar dregið er inn, þetta er til dæmis gert á ströndum og af bryggjum. Þessar veiðar eru yfirleitt til einkanota og fiskurinn yfirleitt borðaður eða notaður í beitu, þá oftast við tómstundaveiðar.
Önnur veiðiaðferð er hringnót, þó á mun minni skala en þær sem við þekkjum á Íslandsmiðum enda er kyrrahafsansjósan sjaldan veidd á meira en níu metra dýpi. Sá fiskur sem veiddur er á þennan hátt fer að stærstu leiti í bræðslu. Þessar veiðar fara nær einvörðungu fram á nóttunni.
Þriðja gerð veiðarfæra sem notað er við veiðar á kyrrahafsansjósu eru svokölluð lampara nets, það er veiðarfæri sem þróað var í Miðjarðarhafinu og er beitt á torfufiska nálægt yfirborðinu þar sem grunnt er til botns. Þessu veiðarfæri svipar til hringnótar en þó er grundvallarmunur á, því er lokað með því að draga það á eftir skipinu. Annar endi netsins er festur við búu eða annan bát, síðan er siglt í kringum torfuna sem á að veiða líkt og með hringnót. Endinn á búunni er svo festur við skipið og siglt, stærri möskvar eru nær skipinu en smáir á pokanum. Þetta eru mjög handvirkar veiðar og krefjast mikils mannskaps miðað við að þetta eru yfirleitt fremur lítil skip, 9 til 18 metrar, fisknum er svo skóflað úr netinu í körfum sem gjarnan eru dregnar upp af handafli. Aflinn sem fæst með þessari aðferð er mestmegnis notaður í beitu, til dæmis við túnfiskveiðar, sverðfiskveiðar, styrjuveiðar og fleira.[5]