Lee Atwater

Lee Atwater árið 1982.

Harvey LeRoy „Lee“ Atwater (27. febrúar 195129. mars 1991) var bandarískur stjórnmálaráðgjafi.

Lee Atwater fæddist í Atlanta í Georgíu þann 27. febrúar 1951. Hann ólst upp með foreldrum sínum og tveimur systkinum í Aiken í Suður-Karólínu. Þegar Atwater var fimm ára gerðist sorgaratburður. Þriggja ára bróðir hans, Joe, lést þegar hann dró yfir sig pott af djúpsteikingarolíu.

Atwater útskrifaðist árið 1970 úr Newberry College. Hann var formaður stúdenta í Suður-Karólínska löggjafarráðinu. Árið 1977 fékk hann mastersgráðu í fjölmiðlun. Hann kvæntist Sally Dunbar árið 1978 og þau áttu þrjú börn.[1]

Þann 5. mars árið 1991 hneig Lee Atwater niður á fjáröflunarmorgunverði sem haldinn var fyrir Phil Gramm öldungardeildarþingmann. Eftir læknisskoðun kom í ljós að um mjög alvarlegt heilahæxli væri að ræða. Krabbameinsmeðferðin var erfið. Líkami hans og andlit bólgnuðu upp og hann lamaðist og var bundin við hjólastól það sem eftir var af ævi hans. Hann lést 29. mars árið 1991.[2]

Stjórnmálaferill

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrstu skrefin

[breyta | breyta frumkóða]

Í áttunda bekk komst Atwater í fyrsta skipti í snertingu við stjórnmál. Þá fór bekkurinn hans í skoðunarferð til Washington DC þar sem að Atwater varð algerlega heillaður. Í menntaskóla fór hann mikið að huga að framtíðinni og var spenntur fyrir lögfræðinámi og jafnvel að starfa einn daginn í pólitík.[3]

Á svipuðum tíma stjórnaði Atwater kosningabaráttu fyrir vin sinn, sem bauð sig fram sem forseta nemendafélagsins og vann. Þar kviknaði áhugi Atwater á að vera „maðurinn á bakvið manninn“. Á meðan hann var nemandi í Newberry College sat hann fyrir hönd skólans í College Republicans National Committee og sem stjórnarnefndarmaður í South Carolina Student Legislature.[4]

Eftir útskrift starfaði Atwater fyrir Repúblikanaflokkinn í Suður-Karólínu (South Carolina Republican Party). Þar vann hann að kosningabaráttum hjá Carroll Campbell, ríkisstjóra Suður-Karólínu, og Strom Thurmond, öldungadeildarþingmanni. Það var þá sem Atwater varð þekktur fyrir klókar kosningarherferðir og útsjónarsemi sína í að nota persónuleg vandamál andstæðinganna til að eyðileggja fyrir þeim. Þessi hæfni hans kom svo bersýnilega í ljós í þingkosningunum árið 1980. Þá starfaði Atwater sem ráðgjafi fyrir Floyd Spence, þingmann repúblikana. Atwater stjórnaði sjónvarpsauglýsingu sem að réðst á Tom Turnipseed, sem var andstæðingur Spence. Í auglýsingunni kom fram að Turnipseed hafði sem unglingur verið þunglyndur og hafði farið í raflostsmeðferð. Atwater lék þannig úr spilunum að Turnipseed hefði verið háður startköplum og væri veikgeðja. Pólitískir andstæðingar Atwater uppnefndu hann Svarthöfða kænskubragða repúblikana.[5]

Reagan-árin

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir þingkosningarnar árið 1980 ákvað Atwater að flytja til Washington DC þar sem ferill hans tók nýjar hæðir er hann hóf störf sem pólitískur ráðgjafi hjá forsetanum, Ronald Reagan. Orðspor hans sem klækjarefur jókst eftir því sem honum tókst, trekk í trekk, að slá andstæðingana niður andstyggilegum brögðum sem enginn hafði séð áður. Á sama tíma hélt hann áfram að spila á gítarinn sinn, bæði á tónleikum og skemmtistöðum og loks gaf hann út plötu sem fékk frábæra dóma. Honum var mikið í mun að hafa gaman af lífinu og kom út sem eins konar sprelligosi.[6]

George H. W. Bush og Lee Atwater skemmta

Eftir að hafa þekkt varaforsetann George H. W. Bush í átta ár á meðan hann vann fyrir ríkisstjórn Reagans ákvað Bush að velja Atwater til þess að sjá um forsetaframboðsherferðina sína árið 1988. Það var þá sem Atwater blómstraði sem klækjarefur. Atwater tókst að eyðileggja herferð andstæðingsins, Michaels Dukakis, ríkisstjóra Massachusetts. Það gerði hann með því að birta herskáa auglýsingaherferð þar sem ótal sögusagnir um Dukakis litu dagsins ljós og höfðu stórfelld áhrif á framboð hans til forseta. Ein þessara sögusagna var að leka þeirri ósönnu staðreynd að eiginkona Dukakis hefði brennt bandaríska fánann á unglingsárum. Hins vegar fólst versta og umdeildasta árás Atwaters í því að birta pólitíska auglýsingu sem kölluð var Willie Horton auglýsingin. Í henni kom fram saga Willie Horton, sem var dæmdur morðingi og afplánaði lífstíðardóm í Massachusetts. Hann hafði fengið heimfararleyfi yfir helgi en á meðan á því stóð réðist hann á konu og nauðgaði henni. Í lok auglýsingarinnar er sagt frá því að Dukakis hafi verið á móti því að leggja niður heimfararleyfi fyrir fanga. Þannig var gerð bein tenging milli skoðunar Dukakis og árásarinnar á konuna. Þar sem Willie Horton var blökkumaður var gjarnan bent á auglýsinguna sem dæmi um hundaflautustjórnmál þar sem alið var á kynþáttahyggju.[7] Þetta lamaði forsetaframboðsherferð Dukakis og Bush vann kosningarnar með meirihluta í 40 ríkjum. Eftir þennan árangur veitti Bush Atwater stöðu formanns Landsnefndar repúblikana [8]

Tíundi áratugurinn

[breyta | breyta frumkóða]

Tveimur árum síðar, árið 1990, var Atwater greindur með heilakrabbamein sem var of langt komið til þess að mögulegt væri að lækna það. Ári síðar í mars, bað Atwater marga fyrrum andstæðinga sína afsökunar á þeim vægðarlausu herferðum sem hann beindi gegn þeim. Það leit því allt út fyrir að Atwater vildi bæta fyrir misgjörðir sínar áður en það yrði of seint. Samtímis þessu frelsaðist hann. Þó verður að nefna að í heimildarmyndinni sem gerð var eftir dauða hans, Boogie Man: The Lee Atwater Story, kom fram að Biblían, sem hann sagðist vera að lesa hafi fundist óupptekin og enn í plastinu. Hann hafði því leikið á alla í kringum sig, allt fram til dauðadags.[9]

Lærifaðir

[breyta | breyta frumkóða]

Lee Atwater var lærifaðir Karls Rove, sem sá um forsetaframboðsbaráttuna fyrir George W. Bush yngri árið 2008. Klækjabrögðum Rove svipaði mjög til þeirra sem Atwater hafði gerst frægur fyrir. Því er augljóst að arfleifð Lee Atwater lifir góðu lífi eftir dauða hans og hefur síðan litað bandarísk stjórnmál fram til þessa dags.[10]

Áhrif á stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]

Lee Atwater umbreytti landslagi bandarískra stjórnmála. Hann endurskilgreindi pólitíska klæki og gekk mun lengra en nokkur hafði þorað áður. Notkun hans á áróðursherferðum og neikvæðri pólítík var einstaklega árangursrík. Hann áttaði sig á því að fólk kýs ekki eftir væntingum sínum heldur ótta. Hann var einstaklega snjall er kom að því að finna og endurskilgreina málefni sem voru í deiglunni og höfðu tilfinningaleg gildi. Þannig náði hann að dreifa athygli kjósenda frá raunverulegum málefnum í vinsæl tilfinningaþrungin málefni. Með því kastaði hann rýrð á mótframbjóðendur og setti þá í varnarstöðu. Með því litu frambjóðendur Atwaters mun betur út og með þessu unnu þeir kosningar.[11]

Aðferðir Lee Attwater eru enn í dag við lýði í bandarískum stjórnmálum. Enn eru neikvæð pólítik og áróðursherferðir nýttar í miklu mæli í kosningabaráttum. Málefnaleg umræða stendur höllum fæti er kemur að vinsælum tilfinningþrungnum gildum sem fjölmiðlar og almenniningur éta upp og mikilvægum málefnum er gleymt.[12]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. [1] í The New York Times. Skoðað 5. nóvember 2012.
  2. [2] í The Washington Post. Skoðað 5. nóvember 2012.
  3. [3] í The Washington Post. Skoðað 5. nóvember 2012.
  4. [4] Geymt 18 mars 2013 í Wayback Machine í The Nation. Skoðað 5. nóvember 2012.
  5. [5] í Find a Grave. Skoðað 5. nóvember 2012.
  6. „Lee Atwater“ í Find a Grave memorial. Skoðað 6. nóvember 2012.
  7. Ingibjörg Árnadóttir (25. nóvember 1992). „Veðjað á það vonda“. Alþýðublaðið. bls. 7.
  8. „Lee Atwater“ í Find a Grave memorial. Skoðað 6. nóvember 2012.
  9. „Lee Atwater“ í Find a Grave memorial. Skoðað 6. nóvember 2012.
  10. „The Lee Atwater Story: Meet the Man Responsible for Karl Rove and the GOP's Hate-Driven Politics“ Geymt 17 nóvember 2012 í Wayback Machine í Alternet. Skoðað 6. nóvember 2012.
  11. [6] í The New York Times. Skoðað 5. nóvember 2012.
  12. [7] Geymt 18 mars 2013 í Wayback Machine í The Nation. Skoðað 5. nóvember 2012.