Látrabjarg

65°30′00″N 24°30′00″V / 65.50000°N 24.50000°V / 65.50000; -24.50000

Látrabjarg

Látrabjarg er fuglabjarg á Vestfjörðum. Það er stærsta sjávarbjarg Íslands, 14 km að lengd og 441 metri þar sem það er hæst. Látrabjargi er í daglegu tali skipt í fjóra hluta, sem heita Keflavíkurbjarg, Látrabjarg, Bæjarbjarg og Breiðavíkurbjarg. Látrabjarg hefur verið nytjað frá landnámstíð. Það er vestasti oddi Íslands. Nafnið kemur af orðinu látur. Bjargið var friðað árið 2021. [1]

Björgunarafrekið við Látrabjarg

[breyta | breyta frumkóða]

Togarinn Dhoon strandaði undir Geldingsskorardal í miklu óveðri þann 12. desember 1947 og hófust þá miklar björgunaraðgerðir. Þær stóðu yfir í um þrjá daga og nær allir bændur í grendinni unnu að björguninni. Þrír skipverjar höfðu drukknað áður en björgunarmenn höfðu sigið niður bjargið en 12 sem eftir voru lifandi var öllum bjargað. Ári síðar var gerð heimildarmynd um björgunina sem Óskar Gíslason leikstýrði. Á meðan á tökum stóð strandaði togarinn Sargon og náði Óskar myndum af þeirri björgun og notaði í heimildarmyndinni. Hún var frumsýnd árið 1949.

Upplýsingar í þessum hluta byggja á gamalli heimild sem mætti uppfæra.[2]

Fjöldi fugla hefur Látrabjarg að heimili. Bjargið er stærsta álkubyggð í heimi og stærsta byggð langvíu og fýls á Íslandi. Þar verpir einnig mikill lundi sem er ábyrgðartegund Íslands. Í bjarginu verpa einnig fálki, hrafn, stuttnefja og svartbakur sem allar eru á válista yfir tegundir í útrýmingarhættu á Íslandi. Aðrar fuglategundir sem finnast í miklum mæli í Látrabjargi eru rita og teista og mögulega einnig toppskarfur og hvítmáfur.[2]

Fléttutegundin bjargstrý vex á Látrabjargi og á örfáum öðrum stöðum á landinu.[2] Bjargstrý er á válista sem tegund í yfirvofandi hættu.

Sjá einnig

[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Kynna tillögu að friðlýsingu Látrabjargs Rúv, skoðað 18. apríl 2019.
  2. 2,0 2,1 2,2 Þorsteinn Narfason (2005). Aðgengi ferðamanna að Látrabjargi með tilliti til áhrifa á villta náttúru. MS-Ritgerð, Líffræðiskor Háskóla Íslands.
  Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.