Marconi-félagið var breskt fjarskiptafélag sem starfaði frá 1897 til 2006 þegar yfirtöku sænska fyrirtækisins Ericsson á félaginu lauk. Fyrirtækið var stofnað af ítalska uppfinningamanninum Guglielmo Marconi sem Wireless Telegraph & Signal Company eftir að hann fékk einkaleyfi á uppfinningu sinni í Bretlandi. Fyrirtækið var frumkvöðull á sviði langdrægra fjarskipta og útvarpssendinga og framleiðslu útvarpsviðtækja. Fyrsta útvarpsframleiðslulína heims var sett upp af fyrirtækinu í Chelmsford árið 1898. Fyrstu útvarpsútsendingarnar í Bretlandi voru gerðar af félaginu sem varð árið 1922 eitt af sex stofnfélögum BBC. Félagið stóð einnig á bak við stofnun Unione Radiofonica Italiana sem síðar varð ítalska ríkisútvarpið RAI. Eftir Síðari heimsstyrjöld gekk fyrirtækið í gegnum nokkrar yfirtökur og endurskipulagningu þar til sænska fjarskiptafélagið Ericsson eignaðist nafnið árið 2006.
Marconi-félagið kom til Ísland sumarið 1905, fyrir tilstuðlan Einars Benediktssonar, áður en að nokkur símalína hafði verið lögð til landsins og setti upp loftnet á Félagstúni, þar sem nú er Höfði. Þar var tekið við fyrstu þráðlausu sendingunni til landsins af nokkurri sort 26. júní 1905. Hannes Hafstein valdi þó frekar að leggja síma með Norræna Símafélaginu þrátt fyrir að vera mun dýrara.