Mótorprótein er hópur sameindamótora sem geta hreyft sig eftir ákveðnu yfirborði. Þau eru drifin af ATP og umbreyta þannig efnaorku í hreyfiorku.
Algengasta og augljósasta dæmið um mótorprótein er próteinið mýósín sem drífur samdrátt vöðvaþráða í dýrum. Þá eru þau einnig drifkrafturinn að baki virkum flutningi próteina og flutningi bóla og frumulíffæra í umfryminu. Kínesín og dynein koma hins vegar að því að aðskilja litninganapörin við mítósu og meiósu. Dynein er einnig að finna í svipum og er því mikilvæg við hreyfingu frumna, t.d. hjá sáðfrumum.
Mótorprótein sem nota frumugrindina við tilfærslu sína skiptast í tvo hópa; aktín-mótorprótein, sem skríða eftir aktínþráðum í frumugrindinni, og þau sem vinna á örpíplunum. Þá vinna þær ýmist frá plús-enda þráðanna eða mínus-enda þeirra. Sum mótorprótein bera með sér farm en önnur breyta hreinlega formi frumunnar.
Mýósín er stór próteinfjölskylda aktín-mótora. Þau samanstanda af tveimur sterkum keðjum með mótorhaus og tveimur minni keðjum. Nafn þeirra er dregið af gríska orðinu yfir vöðva enda gegna mýósín því lykilhlutverki að stjórna samdrætti vöðvaþráða. Þau eru einnig mikilvæg þegar kemur að frumuskiptingu. Alls eru þekktir 18 mýósín-flokkar.[1]
Kínesín er hópur mótorpróteina sem skríða eftir örpíplunum. Þeir aðstoða litninga við að færa sig úr stað í mítósu en einnig flytja þeir hvatbera, Golgí-fléttur og bólur um í heilkjarnafrumum. Kínesín samanstanda oftast af tveimur sterkum keðjum með mótorhaust sem gengur ýmist í átt að plús- eða mínusenda örpíplanna. Alls eru þekkt 14 kínesín-prótein auk annarra líkra próteina sem er ekki hægt að flokka í ákveðna flokka.[2]
Dyneín eru mótorprótein sem geta runnið eftir örpíplunum. Þau eru mun stærri og flóknari próteinflókar en kínesín og mýósín. Dyneín koma við sögu í bifhárum og svipum.
Blómplöntur hafa ekki dyneínmótora heldur stóran hóp af ólíkum kínesínpróteinum. Mörg þeirra eru sérhæfð til að vinna í mítósu og flytja nýja frumuvegg út úr miðju frumunnar sem er í skiptingu.