Næringarger er dautt ger sem er notað sem krydd eða bætiefni í matargerð. Næringarger er sérstaklega notað í grænkerafæði þar sem það inniheldur allar þær amínósýrur sem líkaminn framleiðir ekki sjálfur.[1] Bragðið af því minnir á hnetur eða ost. Næringarger er framleitt með því að rækta sérstök afbrigði af ölgera (Saccaromyces cerevisiae) í næringarlausn þar sem uppistaðan er súkrósi, gjarnan fenginn úr mólassa eða sykurreyr. Gerið er síðan soðið, síað úr lausninni, þvegið og þurrkað. Næringarger er stundum vítamínbætt með járni og B12-vítamíni, en ölgeri framleiðir ekki B12-vítamín þótt sumar bakteríur geri það.