Nítíða saga er íslensk riddarasaga frá síðmiðöldum. Hún fjallar um Nítíðu, dóttur Frakklandskonungs, sem erfir ríki föður síns og stjórnar því sem meykóngur. Sagan er hluti af íslenskri hefð sagna um voldugar konur sem forðast að ganga í hjónaband þrátt fyrir að vera mjög eftirsóttar. Hún sker sig úr að því leyti að Nítíða er ekki grimm eins og stallsystur hennar. Hún er auk þess sjálf aðalpersóna sögunnar en ekki karlhetjan sem kvænist henni að lokum. Sagan naut mikilla vinsælda öldum saman.
Nítíða saga er hluti af íslenskri hefð sem talin er hefjast með Clári sögu. Hana á Jón biskup Halldórsson að hafa fundið „skrifaða með látínu í Frannz“[1] en hann var Skálholtsbiskup frá 1322 til 1339. Ekkert er varðveitt af upphaflegu latínusögunni en fræðimenn telja þó að hún hafi verið til.[2]
Clárus,[3] sonur Þýskalandskeisara, verður ástfanginn af Sérénu, dóttur Frakkakonungs. Hún er bæði vitur og fögur og „sakir hennar vizku lýtr náliga at henni öll stjórn ríkisins jafnfram sjálfum konungi.“[4] Clárus fer bónorðsför til hennar. Hún tekur honum vel í fyrstu og býður honum til veislu en þar niðurlægir hún hann með því að láta hann hella á sig eggjarauðu og hann verður frá að hverfa. Clárus er ósáttur við sinn hlut og fær læriföður sinn, meistara Pérús frá Arabíu, til að hjálpa sér. Pérús lætur smíða þrjá forkunnarfagra gripi sem Clárus siglir með til Frakklands. Nefnist hann nú Eskelvarð og segist vera prins af Blálandi.
Séréna ágirnist kjörgripi Eskelvarðs og falar þá af honum, einn af öðrum. Hann vill ekki selja nema „fyrir sjálfrar hennar blíðu“.[5] Þetta samþykkir hún en þegar hann ætlar að innheimta kaupið byrlar hún honum svefnlyf og lætur húðstrýkja hann. Allt fer á sömu leið með næsta kjörgrip. Þegar kemur að þriðja gripnum hafa Pérus og Clárus hins vegar snúið á Sérénu. Með því að beita galdraþröskuldi hafa þeir heillað Teclu Skotlandsprinsessu, þjónustumey Sérénu og fengið hana til að ganga erinda sinna. Hina þriðju nótt setur Tecla minna af svefnlyfinu í drykk Clárusar svo að hann vaknar um nóttina og getur komið fram vilja sínum við Sérénu.
Pérus og Clárus taka nú til við að niðurlægja, blekkja og lúskra á Sérénu. Eftir að hún hefur þolað illa meðferð í eitt ár tekur Clárus hana loks til drottningar og sagan er úti.
Aðrar riddarasögur sem fjalla um meykónga eru allar taldar frumsamdar á Íslandi eftir að Clári saga var þýdd snemma á 14. öld. Þær sem taldar eru í þennan flokk eru Dínus saga drambláta, Nítíða saga, Sigurðar saga þögla, Sigurgarðs saga frækna og Viktors saga og Blávus. Þær eiga margt sameiginlegt. Meykóngurinn er alltaf falleg kona og miklum mannkostum búin en mjög treg til að ganga í hjónaband. Hún er venjulega grimmlynd og ágjörn og hefur yndi af því að leika á vonbiðla sína. Að lokum sigrast hetjan þó alltaf á henni og þau giftast hamingjusamlega. Áður þurfa þó hetjan og meykóngurinn að þola miklar raunir hvort af annars hálfu. Meykóngasögurnar eru mjög í ætt við aðrar frumsamdar riddarasögur að stíl, sögusviði og byggingu.
Meykóngurinn Nítíða hin fræga tekur við ríki í Frakklandi eftir föður sinn. Hún er bæði vitur og fögur og er hvoru tveggja lýst í mörgum orðum. Sagan hefst á því að Nítíða vitjar fóstru sinnar, Egidíu drottningar, og fær son hennar Hléskjöld til liðs við sig. Nítíða siglir síðan til eyjarinnar Visio sem liggur út undan Svíþjóð hinni köldu. Þar stelur hún náttúrusteinum og fleiri dýrgripum af Virgilíusi jarli. Jarlinn veitir þeim eftirför en Nítíða hylur skip sitt með einum náttúrusteininum og sleppur þannig. Virgilíus er þá úr sögunni en náttúrusteinarnir koma oft fram seinna.
Meginhluti sögunnar fjallar um tilraunir erlendra prinsa til að ná ástum Nítíðu eða neyða hana að öðrum kosti í hjónaband. Helstu vonbiðlarnir eru tveir, Ingi frá Miklagarði og Liforíus frá Indlandi. Ingi reynir að ná Nítíðu á sitt vald með aðstoð kuklarans Refsteins. Þeim tekst að færa meykónginn til Miklagarðs en hún sleppur auðveldlega þaðan aftur með því að beita náttúrusteini. Næst er það hinn fjölkunnugi Slægrefur sem hjálpar Inga að ræna Nítíðu en þegar til kemur hefur drottningin aftur leikið á þá því að sú sem þeir ræna er aðeins ambátt hennar í dulargervi.
Tilraunir Liforíusar fara fyrst í stað á svipaða lund og Inga. Honum tekst með aðstoð dvergs nokkurs að nema Nítíðu á brott en hún sleppur auðveldlega aftur heim og hefur Svíalín, systur Liforíusar með sér. Þær verða síðan hinir mestu mátar. Liforíus leitar nú ráða hjá móðursystur sinni en í þessari sögu eru það ráð kvenna sem duga best. Hún ráðleggur Liforíusi að búast í dulargervi, dveljast einn vetur hjá Nítíðu og skemmta henni með fróðleik um fjarlæg lönd. Þetta gerir hann og nefnist Eskilvarður í dulargervinu, rétt eins og Clárus í sinni sögu.
Nítíða sér að vísu í gegnum dulargervi Liforíusar en lætur sér þó vel líka og þegar veturinn er liðinn biður hún hann að kasta af sér gervinu. Ber nú Liforíus fram bónorð sitt og Nítíða þiggur. Ingi konungur er þó ekki af baki dottinn og þeir Liforíus heyja úrslitaorrustu. Á endanum friðmælast þeir og sögunni líkur hamingjusamlega á að allir fá kvonfang við sitt hæfi. Liforíus kvænist Nítíðu, Ingi Svíalín og Hléskjöldur Listalín, systur Inga.
Nítíða saga á margt sameiginlegt með öðrum meykóngasögum og ekki síst Clári sögu. Fyrir utan líkindi í söguþræði og að nafnið Eskilvarður er endurnýtt hefur verið bent á að sjálf nöfnin Nítíða og Clárus eru næstum sömu merkingar. Hins vegar er sagan af Nítíðu miklu þíðari og laus við allan kvalalosta. Nítíða er sjálf aðalpersóna sögunnar og sýnir töluvert sjálfstæði. Hefur jafnvel verið talið að Nítíða saga hafi verið skrifuð sem einhvers konar „svar“ við Clári sögu.[6]
Þótt Nítíða sé býsna sjálfstæð losnar hún þó ekki alveg undan hefðbundnu kynjahlutverki sínu. Bent hefur verið á að um leið og hún hefur heitið að giftast Liforíusi getur hann boðið hana fram sem verðlaun í viðureign þeirra Inga án þess að ráðgast við hana fyrst.[7]
Nítíða saga er ein hinna frumsömdu íslensku riddarasagna en þær voru lengi vinsælt lesefni. Fræðimaðurinn Matthew Driscoll kallar þær „langvinsælasta lesefnið hér á landi um 700 ára skeið“.[8] Til marks um vinsældirnar nefnir hann sérstaklega Nítíða sögu, segir hana varðveitta í tæplega 70 handritum og sé hún því „án efa vinsælust allra íslenskra sagna“.[9] Í seinni tíð hefur riddarasögunum hins vegar lítið verið sinnt. Árið 1938 skrifaði fræðimaðurinn Erik Wahlgren að Nítíða saga væri „nánast óþekkt“[10] en hann bætir sjálfur nokkuð úr með bók sinni um meykónga.
Sagan var fyrst gefin út 1965 í safni Agnete Loth, Late Medieval Icelandic Romances. Þar birtist stafréttur texti eftir elsta handritinu eins og það hrekkur til en fyllt upp í með fáeinum öðrum. Samhliða er birt endursögn á sögunni á ensku. Sagan hefur ekki verið gefin út síðan og er því ekki til í lestrarútgáfu. Hún hefur þó vakið einhverja athygli undanfarin ár en til viðbótar orðum Driscoll sem vitnað var til að ofan má benda á BA-ritgerð Guðbjargar Aðalbergsdóttur um söguna.