Nýey

Nýey var eyja sem myndaðist árið 1783 í eldgosi neðansjávar suðvestur af Reykjanesi, líklega í grennd við þar sem nú er Eldeyjarboði. Ári síðar var eyjan horfin.

Myndun Nýeyjar hófst 1. maí 1783 og vakti mikla athygli erlendis og vildu sumir vildu tengja hana jarðskjálftum á Suður-Ítalíu fyrr um veturinn. Skipstjóri á húkkertu sem sigldi um þessar slóðir segir í dagbók frá brennandi eyju sem liggur 8 1/2 sjómílu réttvísandi suðvestur frá syðsta Geirfuglaskerinu við Ísland. Hann sigldi að eyjunni til að sjá lögun hennar en varð frá að hverfa þegar skipið var í hálfrar mílu fjarlægð vegna hræðslu um að skipsverjar féllu í ómegin út af brennisteinsreyk.

Þegar Kristján VII Danakonungur frétti af eyjunni gaf hann henni heitið Nýey og skipaði svo fyrir að þangað yrði gerður út leiðangur hið fyrsta og eyjan helguð konungsveldinu með dönskum fána. Síðar ætlaði svo konungur að senda hingað áletraðan stein sem koma átti fyrir á eynni.

Sumarið 1784 átti skip á leið til Kaupmannahafnar með þá Magnús Stephensen og Levetshof kammerherra að koma við á Nýey til að helga hana konungi og gera á henni athuganir en þá var eyjan horfin.

„Hversu algengt er að nýjar eyjar verði til í eldgosum?“. Vísindavefurinn.

  Þessi jarðfræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.