OCW - Opencourseware er verkefni á vegum MIT tækniháskólans, sem er einkarekinn háskóli í Cambridge í Massachusetts í Bandaríkjunum. Þar er almenningi boðið upp á að sækja heilu fyrirlestrana og námskeiðin á internetinu. OCW er netlæg útgáfa af námi sem er opin almenningi. Námsefnið er frítt og þurfa notendur ekki að skrá sig sérstaklega á hvert námskeið auk þess sem hægt er að taka námskeiðin og fyrirlestrana hvenær sem er. Hinsvegar fást engar prófgráður eða skírteini fyrir þáttöku í MIT OCW.[1] Boðið er upp á nánast allar námsgreinar sem kenndar eru í MIT á 11 mismunandi sviðum með yfir 110 námsgreinum. Þáttakendur í MIT OCW heimsækja kerfið í um tvær milljónir skipta í hverjum mánuði og kemur 56% prósent þessara heimsókna frá öðrum löndum en Bandaríkjunum[2]. Árið 2016 voru heimsóknir tæplega 226 milljónir[3].
Árið 1999 hófu starfsmenn MIT að skoða hvernig hægt væri að nýta internetið til að miðla þekkingu og fróðleik til nemenda. Ári síðar komu þeir niðrá OCW og í apríl 2001 var það kynnt í New York Times og opnað fyrir almenningi. Árið 2002 var búið að opna 50 námskeið, ári seinna voru þau orðin 500 og í árslok 2016 voru þau tæplega 2.400, þar af var búið að þýða rúmlega 1.000 á um 10 önnur tungumál[4]. Meðal tungumála sem OCW hefur verið þýtt á eru spænska, portúgalska, kínverska, franska, þýska, víetnamska, úkraínska, tyrkneska, persneska og kóreska.
MIT OCW inniheldur mjög breiða línu af efni, allt frá því að vera takmarkaðir listar af lesefni og prófum yfir í söfn af fyrirlestrarupptökum, gagnvirku námsefni og ókeypis kennslubókum. Rannsóknir MIT sýna að bæði kennarar og almennir námsmenn nota vefinn til að auka við þekkingu sína og bæta frammistöðu sína í námi eða kennslu[5].