Quatre aventures de Spirou et Fantasio (íslenska: Fjögur ævintýri um Sval og Val) er fyrsta Svals og Vals-bókin og hefur að geyma fjórar mislangar sögur um ævintýri félaganna sem upphaflega höfðu birst í teiknimyndablaðinu Sval á árunum 1948-50. Höfundur bókarinnar var Franquin. Hún kom út á frönsku árið 1950 en hefur ekki verið gefin út á íslensku sem ein heild. Allar sögurnar hafa þó birst í tveimur bókum Frosks útgáfu árin 2014 og 2105: Svalur í hringnum og Svörtu hattarnir.
Spirou et les plans du robot (íslenska: Vélmennisuppdrátturinn) er sjálfstætt framhald eldri sögu um Sval og Val, sem sagði frá útistöðum þeirra við geggjaðan vísindamann sem fundið hafði upp fullkomið vélmenni. Sagan hefst á að þeir félagarnir lesa viðtal við vísindamanninn, sem komið hafði verið fyrir á geðveikrahæli. Í því segir hann frá vélmenni sínu og sjá Svalur og Valur í hendi sér að glæpamenn muni ásælast teikningarnar þessari snjöllu uppfinningu, ef þær sé að finna í tilraunastofu hans.
Eftir mikinn eltingaleik tekst Sval að farga teikningunum. Glæpamennirnir halda þá á geðveikrahælið og ræna vísindamanninum en Svalur og Valur ná honum til baka. Vísindamaðurinn fær höfuðhögg og gleymir öllu um vítisvélar þær sem hann ætlaði að búa til og gerist friðsamur. Þrjótarnir eru handteknir.
Spirou sur le ring (íslenska: Svalur í hringnum) gerist meðal götustráka í Brussel. Fanturinn og hrekkjusvínið Steingeir veður uppi með ofríki gagnvart smástrákunum í hverfinu. Einn þeirra er vinur Svals og verður úr að Svalur og Steingeir mætist í hnefaleikabardaga.
Í aðdraganda bardagans lúskrar Steingeir á saklausum vegfarendum og beitir fjárkúgunum. Svalur kemst hins vegar í kynni við gamlan hnefaleikaþjálfara sem veitir honum leiðsögn. Þrátt fyrir ýmis bellibrögð andstæðingsins vinnur Svalur frægan sigur í bardaganum. Steingeir er hrakinn í burtu af smástrákunum, en Svalur sýnir honum göfuglyndi og þeir verða vinir.
Spirou fait du cheval (íslenska: Svalur knapi) er stysta saga bókarinnar, rétt um átta blaðsíður að lengd. Svalur og Valur bregða sér í útreiðartúr, en bykkjan sem Svalur fær til reiðar gengur af göflunum og reynist hafa gríðarlegan stökkkraft. Útreiðartúrinn endar því með ósköpum.
Spirou chez les Pygmées (íslenska: Svalur á Litlupattaeyju) segir frá því þegar Svalur verður á vegi hlébarða og tekur hann heim í íbúðina sína. Eftir ýmis vandræði tekst að hafa upp á eigandanum, sem er skringilegur landkönnuður. Sá býður Sval og Val með sér til eyju úti fyrir ströndum Afríku.
Þeim er tekið með kostum og kynjum af ættbálki skógardverga sem eru dökkbrúnir á hörund. Eftir ýmsar kyndugar uppákomur kemur í ljós að á eyjunni er óvinaættbálkur með svartan hörundslit og eiga hóparnir í stöðugum erjum. Reynist illur hvítur þrælapískari bera ábyrgð á árásargirni svarta ættbálksins. Svalur og Valur uppgötva að hinir svörtu eru í raun með sama húðlit og hinir, bara skítugri. Þeir stinga öllum í bað og friður kemst á og hvíti þrjóturinn fær sína refsingu.