Riddarasögur eru sögur sem voru annað hvort þýddar í Noregi og á Íslandi á síð-miðöldum (þýðingar á romans courtois, chansons de geste, lais og tengdum bókmenntagreinum) eða frumsamdar á Íslandi í sama stíl.
Orðið „riddarasögur“ kemur fyrir í Mágus sögu jarls, þar sem segir: „Frásagnir...svo sem...Þiðreks saga, Flóvenz saga eður aðrar riddarasögur“. Stundum eru þær kallaðar „lygisögur“, sem er einnig notað um aðrar sögur með miklum ævintýrablæ, svo sem fornaldarsögur. Sumar þýddar riddarasögur fjalla þó ekki um ævintýri og ástir riddara, heldur atburði á borð við Trójustríðið og afleiðingar þess. Loks má nefna að Gustaf Cederschiöld notar nafnið „Fornsögur Suðurlanda“ í útgáfu fimm riddarasagna 1884.
Frumsamdar íslenskar riddarasögur einkennast oft af frásögnum af hirðlífi og ástum, glæsilegum konum og köppum, svakalegum bardögum og yfirnáttúrulegum hetjudáðum. Hugprýði, drengskapur, háttvísi, hreysti, kurteisi og rómantík eru áberandi í sögunum og sönn kristileg hegðun er mikilvæg. Skýr skil eru gerð á milli góðs og ills og eru það oft kristnir menn sem eru hetjurnar og þeir slæmu heiðnir, frá þjóðum í suðri og norðri. Hetjunum er yfirleitt lýst á afar jákvæðan hátt, bæði persónuleika og útliti. Þó eru þær ekki alltaf gallalausar, t.d. er Dínus (Dínus saga drambláta) hégómagjarn og Konráð (Konráðs saga keisarasonar) vanræktar kunnáttu í erlendum málum.
Erlendu riddarasögurnar voru yfirleitt í bundnu máli (kappakvæði eða riddarasöngvar), en voru þýddar í óbundið mál í Noregi. Talið er að upphaf norrænna riddarasagna megi rekja til þess að Hákon konungur gamli lét bróður Róbert (þ.e. Róbert munk) þýða Tristrams sögu og Ísöndar, um 1226. Hefur sú þýðing mikið gildi, því að franski frumtextinn er að mestu glataður. Elís saga og Rósamundu var þýdd af Róbert ábóta, sem talinn er sami maður og bróðir Róbert. Hákon konungur lét þýða fleiri riddarasögur, t.d. Möttuls sögu, einnig er líklegt að sagnaflokkur eftir Chrétien de Troyes hafi verið þýddur að hans frumkvæði, þ.e. Erex saga, Ívents saga, Parcevals saga og Valvens þáttur.
Strengleikar, eru safn stuttra ljóðsagna, flestar eftir Marie de France.
Riddarasögur bárust til Íslands um eða fyrir 1250. Þær urðu vinsæl bókmenntagrein hér á landi og þýddu íslenskir rithöfundar nokkrar slíkar sögur. Þaðan komu mörg orð eins og kurteisi (fornfranska: „curteisie“), knapi (miðlágþýska: „knape“), riddari (miðlágþýska: „ridder“) og lávarður (fornenska: „hlāford“).[1] Sumar sögurnar eru í ljóðrænum stíl eins og frumtextinn. Íslenskir rithöfundar sömdu einnig margar nýjar riddarasögur í svipuðum stíl. Höfundar sagnanna eru flestir óþekktir og sjaldan er vitað hverjir þýddu erlendu sögurnar. Í Klári sögu stendur að þýðandinn sé Jón Halldórsson Skálholtsbiskup en hann kann að hafa samið hana sjálfur, enda er sagan nú talin vera frumsamin en ekki þýdd úr latínu.
Úr latínu
Úr frönsku
Úr þýsku
Hér á eftir fer listi yfir frumsamdar íslenskar riddarasögur, sem hafa verið gefnar út. Listinn er ekki tæmandi.