Ruðningsáhrif er hugtak í hagfræði og er haft um veiklun atvinnugreina á tilteknu svæði við það að þar hefst atvinnurekstur sem hinn eldri getur ekki keppt við í launum o.fl. Hugtakið er nýlegt, en dæmi um ruðningsáhrif leynast víða í fortíðinni, t.d. þegar uppsveifla í sjávarútvegi olli því á Íslandi að gengi krónunnar hækkaði upp úr öllu valdi og strádrap iðnaðinn. Sams konar áhrif eru talin hafa rutt bændafólki úr sveit til útgerðarbæjanna, en í bæjunum var verðmætasköpun meiri og þar með hægt að standa undir betri launakjörum og lífskjörum en í sveitinni. Á Íslandi telja sumir einnig að fjárfestingar í iðnaði séu taldar undirrót hás gengis sem dregur úr starfsemi í útflutnings- og samkeppnisgreinum. Ruðningsáhrif eru stundum eignuð stóriðjuframkvæmdum og áhrifum þeirra en flest bendir til þess að innstreymi fjármagns vegna þessara miklu fjárfestinga sé einungis hluti af skýringunni.