Íslenska og norska rúnakvæðið fjalla um hin 16 tákn yngri rúnaraðarinnar, engilsaxneska rúnakvæðið fjallar um 26 tákn úr hinni svo nefndu engilfrísísku rúnaröð. Engilsaxneska kvæðið er talið vera frá lokum tíundu aldar en kann að vera eldra. Norska kvæðið er sennilega frá lokum tólftu aldar og það íslenska frá fimmtándu öld. Það íslenska er oft nefnt Þrídeilur af því að þrjú vísuorð eru höfð um hverja rún. Öll eru kvæðin ólík en svipa þó til hvers annars. Í kvæðunum eru bæði heiðnar og kristnar kenningar. Fyrir utan þessi þrjú kvæði er rúnalisti í 9. aldar handrit sem nefnt er Abecedarium Nordmannicum.
Óvíst er um hlutverk rúnakvæðanna, hugsanlegt er að þær hafi verið rímaðar minnisgreinar yfir röð rúnatáknanna, snauðar að djúphygli eða merkingu. En þau gætu allt eins búið yfir fornri merkingu þó að erfitt sé að ráða í hana nú á dögum. Hugsanlega hafa þau átt að hjálpa við að hugfesta ákveðna merkingu þegar unnið var að göldrum; þau gætu einnig falið í sér dulmál um launhelgar einstakra rúna.[1][2]
Íslenska rúnakvæðið er yngst af þeim rúnakvæðum sem varðveist hafa og er sennilega samið með hliðsjón af eldri kvæðum til dæmis því sem nefnt er norska rúnakvæðið. Íslenska rúnakvæðið til í þremur handritum, öll á Arnamagnæanske Institut í Kaupmannahöfn. Það elsta er AM 687, frá því um það bil ár 1500, þar eru rúnirnar letraðar í upphafi hverrar vísu en ekki nöfnin. AM 461, frá 16. öld, þar eru nöfn rúnanna en ekki þær sjálfar. Það yngsta er AM 413, afrit af handriti frá 16. öld í RunologiaJóns Ólafssonar frá Grunnavík (1732-52). [3]
Íslenska rúnakvæðið er samið í bragarhætti þeim er nefndur er ljóðaháttur.[4]
Norska rúnakvæðið var fyrst prentað og þá með rúnatáknunum í Danica Literatura Antiquissima sem saman var tekið af Olaus Wormius og gefið út 1636. Það var afritað af handriti frá 13. öld sem var á Háskólabókasafni Kaupmannahafnar en hvarf í brunanum 1728.[5]
Norska rúnakvæðið er samið í bragarhætti þeim sem nefndur er fornyrðislag. Hver braglína fornyrðislags hefur tvö ris en breytilegan fjölda áherslulausra atkvæða. Stuðlasetning tengir saman tvær og tvær línur en rím er ekkert.[6]
Engilsaxneska rúnakvæðið var sennilega samið á 8. eða 9. öld og varðveittist í handriti frá 10. öld sem nefnt var Cottonian Otho B.x, 165a - 165b, en það hvarf í bruna ásamt mörgum öðrum handritum 1731. Það hafði áður verið prentað í riti George Hickes, Linguarum Veterum Septentrionalium Thesaurus, 1705. Allar seinni útgáfur kvæðisins eru gerðar eftir bók Hickes.[7]
Feoh byþ frofur fira gehwylcum;
sceal ðeah manna gehwylc miclun hyt dælan
gif he wile for drihtne domes hleotan.
Ur byþ anmod ond oferhyrned,
felafrecne deor, feohteþ mid hornum
mære morstapa; þæt is modig wuht.
Ðorn byþ ðearle scearp; ðegna gehwylcum
anfeng ys yfyl, ungemetum reþe
manna gehwelcum, ðe him mid resteð.
Os byþ ordfruma ælere spræce,
wisdomes wraþu ond witena frofur
and eorla gehwam eadnys ond tohiht.
Rad byþ on recyde rinca gehwylcum
sefte ond swiþhwæt, ðamðe sitteþ on ufan
meare mægenheardum ofer milpaþas.
Cen byþ cwicera gehwam, cuþ on fyre
blac ond beorhtlic, byrneþ oftust
ðær hi æþelingas inne restaþ.
Gyfu gumena byþ gleng and herenys,
wraþu and wyrþscype and wræcna gehwam
ar and ætwist, ðe byþ oþra leas.
Wenne bruceþ, ðe can weana lyt
sares and sorge and him sylfa hæfþ
blæd and blysse and eac byrga geniht.
Hægl byþ hwitust corna; hwyrft hit of heofones lyfte,
wealcaþ hit windes scura; weorþeþ hit to wætere syððan.
Nyd byþ nearu on breostan; weorþeþ hi þeah oft niþa bearnum
to helpe and to hæle gehwæþre, gif hi his hlystaþ æror.
Teikning Wilhelm Grimm af Abecedarium Nordmannicum
Elsti listinn yfir rúnanöfn er svo nefnt Abecedarium Nordmannicum og er frá 9. öld. Það eru engar útskýringar á rúnunum eða rúnanöfnum einungis rúnatáknin og nöfnin skráð með latnesku letri. Rúnirnar eru flestar af gerð yngri rúnaraðarinnar en nokkrar engilfrísneskar. Textann var að finna í handritinu Codex Sangallensis 878 sem geymt er í klaustri í St. Gallen í Sviss, en sennilega kemur textinn upphaflega frá Fulda í Þýskalandi. Abecedarium Nordmannicum textinn eyðilagðist um miðja 19. öld af efnum sem áttu að vernda handritið. Þýski málfræðingurinn Wilhelm Grimm hafði teiknað textann 1828 og er þessi teikning eina heimildin sem síðan hefur verið notuð. Fyrirsögnin er ABECEDARIUM NORD en textinn eru þrjár raðir:
feu forman | ur after | thuris thriten sstabu | os ist imo oboro | rat end os uuritan
chaon thanne clivot | hagal | naut habet | is | ar | endi sol
tiu | brica | endi man midi | lagu the leohto | yr al bihabet
Úr þessu hefur verið ráðið:
'feu (fé) fyrst | ur (úruxi) eftir | þurs þriðji stafurinn | ós (ás) fylgir | rat (reið) endar skriftina
chaon (kaun) þá klífur | hagal (hagl) | naut (neyð) hefur | ís | ár (árferði) | endar sól
tíu (Týr) | birca (birki) | og man (maður) í miðju | lago (vatn) hið hreina | ýr líkur öllu [8]
Textinn er blanda af fornnorrænu, fornsaxnesku og fornþýsku og hefur sennilega haft danska fyrirmynd.
Fyrir utan rúnanöfnin og rúnirnar er textinn hljóðlík orð sem sennilegast áttu að auðvelda að læra rúnaröðina utanað.[9]