Samtalsgreining

Samtalsgreining eða samræðugreining er aðferð til rannsókna á samskiptum fólks með því að greina samtöl út frá uppskrifuðum hljóðupptökum. Samtalsgreining var fyrst þróuð af Harvey Sacks og Emanuel Schlegoff út frá athugunum Sacks sem hann lýsti í röð fyrirlestra við Kaliforníuháskóla 1964 til 1972. Í fyrirlestrunum byggði Sacks meðal annars á reynslu sinni við greiningu á hljóðupptökum frá hjálparlínu fyrir fólk í sjálfsvígshugleiðingum. Í fyrirlestrunum fjallaði hann vítt og breitt um samskipti og samtöl, en samstarfsmenn hans, m.a. Schlegoff og Gail Jefferson þróuðu aðferðina eftir lát hans 1975. Samtalsgreining greinir litla þætti sem koma reglulega fyrir í samtölum, s.s. aðferðir við lotuskipti (hvernig fólk skiptist á að tala), hik, samstæðupör o.fl. í þeim tilgangi að reyna að átta sig á hlutverki þeirra í samskiptum þátttakenda. Samtalsgreiningu hefur einkum verið beitt á samtöl sem fara fram við formlegar aðstæður; vitnaleiðslur, læknaviðtöl, innkaup og þess háttar. Samtalsgreining er oft flokkuð sem grein af félagsháttafræði og er stundum stillt upp sem andstæðu við orðræðugreiningu.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.