Dinophyceae | ||||||
---|---|---|---|---|---|---|
"Peridinea" úr Artforms of Nature eftir Ernst Haeckel, 1904
| ||||||
Vísindaleg flokkun | ||||||
|
Skoruþörungar (fræðiheiti: Dinophyceae) eru stærsti flokkur svipuþörunga. Þessir þörungar mynda þörungablóma við strendur þegar líður á sumar og sumar tegundir þeirra eru helsta ástæðan fyrir hættulegum eiturefnum í skelfiski eins og kræklingi.
Einkenni í útliti þessara einfrumu þörunga eru tvær skorur sem liggja í kross þvert yfir frumuna. Önnur skoran, þverskoran, nær umhverfis alla frumuna, en hin, langskoran, er misjöfn eftir tegundum. Skoruþörungar hafa tvær mis langar svipur og liggja þær hvor í sinni skorunni. Svipan í langskorunni er að jafnaði meira áberandi. [1] Nokkurskonar brynja umlykur margar tegundir skoruþörunga. Hún getur verið hornótt og er samsett úr nokkuð þykkum plötum. Þeir þörungar sem hafa þetta útlit eru oft kallaðir hornþörungar eða brynþörungar (Dinophyceae). Aðrar tegundir eru nánast berar og getur lögun þeirra verið breytileg. [2] Í flestum tilvikum er kjarni skoruþörunga áberandi. Frumurnar sjálfar eru í ýmsum litum og sumar jafnvel rauðar. Í þörungablóma er oft talað um blóðsjó vegna litarins. Grænukornin í þeim eru yfirleitt gulbrún, en sumar tegundir hafa engin grænukorn (Dinoflagellata). Þær geta neytt fastrar fæðu og flokkast því oft með dýrum. Sumir skoruþörungar hafa rauðan augndíl.[3]
Skoruþörungar eru flokkaðir eftir sköpulagi en taldir vera af samsíða þróunarlínum. Þeir hópar sem eru með hulu eru flokkaðir í fjóra ættbálka eftir því hvernig brynplötur þeirra raðast.
Ættbálkar (auk ýmissa ættkvísla) skoruþörunga sem eru án hulu eru taldir vera fjölstofna (þ.e. tilheyra ólíkum þróunarlínum).
Skourþörunga má finna bæði í sjó og vötnum, þó meira sé um þá í sjó. Þeir búa oft í samlífi eða jafnvel í samhjálp með öðrum sjávardýrum, þar á meðal kóraldýrum og svömpum.[4]
Skoruþörungar eru meðal þeirra svifþörunga sem mynda svokallaðan þörungablóma við strendur og í fjörðum á vorin, sumrin og svo aftur á haustin. [5] Mjög mikill þörungablómi getur litað vötn og sjó í rauðum eða brúnum lit. Þetta er oft kallað mor eða bljóstjór og skapast vegna gríðarlegs fjölda þörunga á viðkomandi svæði. [6]
Vissar tegundir skoruþörunga geta valdið matareitrun í mönnum vegna neyslu á skelfiski. Meðal þeirra eitrana sem menn geta veikst af er svokölluð DSP (Diarrhetic shellfish poisoning) eitrun. Eitrunin á sér stað þegar menn neyta skelfiskt sem nærst hefur á þörungunum með þeim afleiðingum að eitur safnast upp í þeim. Þetta gerist aðeins ef mikið magn þörunga er í sjó á svæðinu. DSP eitrun veldur ógleði og uppköstum, niðurgangi og verkjum í kviði. Veikindin ganga yfirleitt yfir á þrem sólarhringum, en þó er talið að í um 15% tilvika valdi hún dauða. [7]