Skólakerfið á Íslandi

Grunnskóli

[breyta | breyta frumkóða]

Skólaskylda

[breyta | breyta frumkóða]

Samkvæmt íslenskum lögum er skólaskylda í grunnskólum Íslands og er einstaklingum frá 6 til 16 ára aldurs skylt að sækja þá (nema veittar séu undanþágur). Námið er fyrrgreindum einstaklingum að kostnaðarlausu en ríkinu er skylt að kosta alla skólagönguna á meðan hún fellur undir aðalnámskrá. Tilheyrandi sveitarfélag sér síðan um rekstur hvers skóla en menntamálaráðuneytið sér um að ákvarða aðalnámskrá. Starfstími nemenda í grunnskóla er að lágmarki níu mánuðir og byrjar venjulega fyrir mánaðamótin ágúst/september og endar um mánaðamótin maí/júní. Kennsludagar skulu ekki vera færri en 170 samkvæmt aðalnámsskrá en samkvæmt kjarasamningum við kennara eru þeir 180.

Skóladagar

[breyta | breyta frumkóða]

Hver kennsludagur byrjar að morgni til (venjulega um eða rétt eftir kl. 8:00) og er samfelldur með eðlilegum stundahléum og matarhléi. Að lágmarki fimmtán mínútur skulu vera teknar í stundahlé fyrir hverjar 100 mínútur sem kenndar eru og matarhléið skal aldrei vera skemur en 30 mínútur. Í 1.-4. bekk eru að lágmarki 30 kennslustundir á viku, 5.-7. bekk 35 kennslustundir og 37 kennslustundir fyrir nemendur í 8.-10. bekk. Meðallengd kennslustunda er 40 mínútur. Jólaleyfi grunnskólanemenda eru frá og með 21. desember til og með 3. janúar. Páskaleyfi eru frá pálmasunnudegi til og með þriðjudegi eftir páska. Hægt er samt að færa til leyfin með skólanámskrá.

Samræmd lokapróf

[breyta | breyta frumkóða]

Að hausti, í 4. og 7. bekk, skulu nemendur þreyta samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði. Í 9. bekk skulu nemendur að auki taka samræmd könnunarpróf í ensku en prófin í 9. bekk eru haldin á vorin. Hluti af tilgangi þeirra er að sjá gengi hvers nemanda miðað við heildina. Niðurstöðurnar úr prófunum í 9.bekk má nota t.d. við mat á þekkingu og námshæfni hvers nemanda þegar hann sækir um frekara nám eða atvinnu sem krefst ákveðinnar hæfni í viðkomandi greinum.

Framhaldsskóli

[breyta | breyta frumkóða]

Framhaldsskóli er hugsaður sem beint framhald af grunnskóla en ekki er skólaskylda. Hægt er að velja margar mismunandi brautir eftir námsáherslu og er hægt að útskrifast sem stúdent af brautum sem bjóða upp á 140 einingar eða fleiri í námskrá. Ólíkt grunnskóla, þá er námið eingöngu að hluta til styrkt af ríkinu og því þurfa nemendur að borga skólagjöld og fyrir það námsefni sem þeir þurfa.

Tegundir náms

[breyta | breyta frumkóða]

Tvær mismunandi tegundir framhaldnáms eru í boði og eru það iðnskóli og menntaskóli eða fjölbrautaskóli. Í iðnnámi er lögð áhersla á helstu kjarnagreinar, greinar sem nauðsynlegar eru fyrir námið og síðan verklegt nám í iðninni sem brautin tekur fyrir. Nemendur sem útskrifast úr iðnnámi fá opinbera staðfestingu til að stunda viðkomandi starfsgrein. Áherslan í menntaskóla er hins vegar bóklegt nám en minna er um verklegt nám en í iðnnámi.

Bekkjakerfi og áfangakerfi

[breyta | breyta frumkóða]

Framhaldsskólar hafa mismunandi fyrirkomulag við kennslu og eru helstu kerfin nefnd bekkjakerfi og áfangakerfi. Í bekkjakerfi eru nemendur settir í hópa eftir því hvaða braut þeir hafa valið sér og taka allir sömu fögin en lokaprófin eru tekin um vorið og vinnur nemandinn sér inn einingarnar þegar hann hefur staðist þau. Áfangakerfið er hins vegar frjálsara en bekkjarkerfi, þar sem hver og einn nemandi getur ráðið því hvaða greinar hann sækir um og fjölda þeirra, svo fremi að það sé innan leyfilegra marka. Nemendur bera því algera ábyrgð á því að velja eftir sínum hentugleika og að ákvarða rétta leið í átt að útskrift af brautinni. Skólatímabilið, ólíkt því í bekkjakerfi, er kallað önn og stendur í um fjóra til fimm mánuði í hvert skipti og eru lokapróf tekin í enda hverrar annar. Haustönn kallast skólatímabilið sem stendur frá seinni hluta ágúst og endar með prófum í desember en vorönn er tímabilið sem hefst í janúar og endar með prófum í maí.

Skóladagur

[breyta | breyta frumkóða]

Mismunandi er eftir stundatöflum hvenær hver nemandi byrjar skóladaginn og getur það verið mismunandi eftir skólatímabilum en venjulegur skóladagur byrjar rétt eftir kl. 8:00 að morgni og getur staðið þess vegna fram yfir kvöldmat (ekki endilega samfleytt) en það fer eftir skipulaginu á stundatöflunni. Í bekkjakerfi eru venjulega 40 mínútna kennslustundir á stundatöflu en í áfangakerfi er lengd kennslustundar mismunandi eftir skólum, oft á bilinu 40 mínútur til 1 klst.

Einingakerfið

[breyta | breyta frumkóða]

Til að teljast stúdent af einhverri ákveðinni braut, þá þarf nemandi að hafa lokið 140 einingum af brautinni. Hægt er að taka 2 eða fleiri brautir en hverjum áfanga þarf ekki að ljúka nema einu sinni. Hver áfangi hefur fjögurra stafa áfanganúmer en þeim seinasta er venjulega sleppt til einföldunar. Fyrsti tölustafurinn er venjulega númer áfangans í röðinni og verður að ljúka byrjunaráföngum áður en haldið er áfram. Annar tölustafurinn er notaður til aðgreiningar, til dæmis ef það eru margir áfangar innan sömu greinar á sama erfiðleikastigi. Þriðji tölustafurinn tilkynnir einingafjöldann sem að nemandi fær þegar hann hefur lokið námi í áfanganum. Fjórði og seinasti tölustafurinn, venjulega ekki skrifaður á stundatöflur, segir til um hve margar 40 mínútna kennslustundir eru kenndar í hverri viku í áfanganum. Venjulega er talan tvöfalt hærri en sú þriðja en það eru undantekningar frá því.

Nemandi fellur á önn nái hann ekki níu einingum. Mjög fjölbreytt er hver lámarksmæting í kennslustundir er og fer það eftir skólum en ef lágmarks mætingu er ekki náð fellur nemandinn. Ef fallið er í sama fagi oftar en þrisvar þá er ekki frekari skólavist heimiluð. Þó eru undantekningar á þessu öllu.