Skútuöld

Skútuöld er það tímabil í mannkynssögunni þegar seglskip voru ríkjandi samgöngutæki og uppistaðan í landkönnun, landvinningum og landnámi Evrópubúa í fjarlægum heimshlutum. Tímabilið nær nokkurn veginn frá orrustunni við Lepanto, síðustu stóru sjóorrustunni þar sem flest skipin voru galeiður knúnar með árum, til orrustunnar við Hampton Roads 1862 þegar gufuknúin skip sýndu fram á yfirburði í hernaði gagnvart seglskipum.

Í þrengri skilningi nær skútuöld einkum yfir tímabilið frá byrjun 19. aldar fram yfir miðja öldina, þegar seglskip náðu áður óþekktum stærðum og sigldu með tugþúsundir evrópska landnema til Nýja heimsins, Afríku og Eyjaálfu.