Thomas Madsen-Mygdal

Thomas Madsen-Mygdal
Forsætisráðherra Danmerkur
Í embætti
14. desember 1926 – 30. apríl 1929
ÞjóðhöfðingiKristján 10.
ForveriThorvald Stauning
EftirmaðurThorvald Stauning
Persónulegar upplýsingar
Fæddur24. desember 1876
Mygdal, Hjørring, Danmörku
Látinn23. febrúar 1942 (65 ára) Kaupmannahöfn, Danmörku
ÞjóðerniDanskur
StjórnmálaflokkurVenstre

Thomas Madsen-Mygdal (24. desember 187623. febrúar 1942) var danskur stjórnmálamaður sem gegndi embætti sem forsætisráðherra Danmerkur frá 1926 til 1929.

Ævi og ferill

[breyta | breyta frumkóða]

Thomas Madsen-Mygdal fæddist í Hjørring á Jótlandi, sonur stjórnmálamanns og landsþingsmanns úr Radikale Venstre. Hann lauk kennaraprófi og menntaði sig því næst sem búfræðingur og stýrði um árabil landbúnaðarskóla á Fjóni.

Á yngri árum var hann virkur í Radikale ventre en sagði skilið við flokkinn og gekk til liðs við Venstre vegna ágreinings um skipulags- og landbúnaðarmál. Hann gegndi embætti landbúnaðarráðherra í ríkisstjórnum Niels Neergaard á árunum 1920-24, í fyrstu sem ráðherra utan þings en á árinu 1920 var hann kjörinn á landsþingið.

Eftir að borgaralegu flokkarnir komu sér saman um að fella ríkisstjórn Thorvalds Stauning og Jafnaðarmannaflokksins árið 1926 mynduðu Venstre og Íhaldssami þjóðarflokkurinn nýja ríkisstjórn undir forystu Madsen-Mygdal sem jafnframt gegndi embætti landbúnaðarráðherra.

Í efnahagsmálum aðhylltist Madsen-Mygdal frjálshyggju og var kunnur fyrir ummæli sín: „Það sem ekki fær staðið á að falla“ (danska: „Lad falde hvad ej kan stå“).[1] Jafnframt hvatti hann til mikils niðurskurðar í ríkisfjármálum, sem varð stjórn hans að lokum að falli. Jafnaðarmönnum tókst að fylkja alþýðunni um andstöðu við sparnaðarstefnuna og Íhaldssami þjóðarflokkurinn gat ekki sætt sig við niðurskurð til danska hersins, sem leiddi til stjórnarslita árið 1929 eftir að fjárlögin voru felld í þinginu.

Við tók löng valdaseta Jafnaðarmanna og þverrandi pólitísk áhrif Venstre. Flokkurinn reyndi að bregðast við með því að breyta skipulagi sínu og taka upp embætti formanns. Varð Madsen-Mygdal því fyrsti formaður flokksins og sat frá 1929-41, en þá hvarf hann úr forystusveit Venstre þar sem ótti hans við Sovétríkin olli því að hann þótti óþarflega hallur undir Þjóðverja. Hann lést ári síðar.

  • K. Dorph-Petersen, "Th. Madsen-Mygdal", bls. 1-4 í: Gads Danske Magasin, 1927.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Ole Olsen (13. september 2006). „Lad falde hvad ikke kan stå“. Information. Sótt 28. mars 2021.


Fyrirrennari:
Thorvald Stauning
Forsætisráðherra Danmerkur
(14. desember 192630. apríl 1929)
Eftirmaður:
Thorvald Stauning