Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, einnig þekkt sem Owl Fisher (fædd 6. janúar 1991), er íslenskur kynsegin greinahöfundur, kvikmyndagerðarmanneskja, rithöfundur og trans aðgerðasinni.
Ugla Stefanía fæddist á Íslandi þann 6. janúar 1991. Hún kom út úr skápnum sem trans árið 2010 og var þá ein yngsta manneskjan á Íslandi til að ganga í gegn um læknisfræðilegt kynstaðfestingarferli. [1] Faðir Uglu er oddviti sveitarstjórnar Húnavatnshrepps, þar sem Ugla er fædd og uppalin. [2] Hann hefur opinberlega stutt Uglu og hennar ferli. [3]
Árið 2016 útskrifaðist Ugla með meistaragráðu í kynjafræði frá Háskóla Íslands.
Ugla var meðal stofnfélaga HIN - Hinsegin Norðurland, samtaka hinsegin fólks á Norðurlandi, árið 2011. Í kjölfarið af því varð hún stjórnarmeðlimur Trans Ísland og var formaður félagsins allt fram í mars 2022. [4] Ugla var fræðslustýra Samtakanna '78 frá 2012 til 2016. [5] Hún lét einnig til sín taka á alþjóðavettvangi og var stjórnarmeðlimur í IGLYO, alþjóðlegum samtökum hinsegin ungmenna og stúdenta, frá 2014 til 2016. [6]
Árið 2016 hélt Ugla TEDx–fyrirlestur á TEDx Reykjavík sem kallaðist „Moving Beyond the Binary of Sex and Gender.“ Í fyrirlestrinum fjallaði Ugla um trans- og intersex fólk frá sínu persónulegu sjónarhorni. [1]
Árin 2015 til 2019 tók Ugla, ásamt Kitty Anderson frá Intersex Ísland, þátt í vinnu við að semja frumvarp um kynrænt sjálfræði. Fyrsti áfangi frumvarpsins var samþykktur á Alþingi í júní 2019. Ugla gagnrýndi lokaútgáfu þess, en greinar sem veittu intersex börnum vernd gegn læknisfræðilegum inngripum höfðu verið fjarlægðar.
Ugla Stefanía flutti til Bretlands árið 2016. Þar stýrir hún kvikmyndaverkefninu My Genderation, sem varpar ljósi á upplifanir trans fólks. Einnig hefur hún unnið með All About Trans, breskum samtökum sem vinna að því að auka sýnileika trans fólks í fjölmiðlum. Ugla hefur skrifað fjölda greina í bresk dagblöð á borð við The Guardian og The Independent, auk lesbíutímaritsins DIVA. Hún var einnig meðhöfundur bókarinnar Trans Teen Survival Guide ásamt Fox Fisher. Bókin var gefin út af Jessica Kingsley Publishers árið 2018. [7]
Í júní 2020 slitu Ugla og þrír aðrir höfundar tengsl við bókaumboðsskrifstofuna Blair Partnership, sem var einnig umboðsskrifstofa J.K. Rowling, eftir að fyrirtækið neitaði að gefa út opinbera yfirlýsingu sem styddi við réttindi trans fólks í kjölfar transfóbískra yfirlýsinga Rowling. [8]
Árin 2016 og 2017 bauð Ugla sig fram til Alþingis fyrir hönd Vinstri grænna. Árið 2017 tilkynnti hún afsögn sína úr flokknum í kjölfar þess að hann myndaði ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum.[9] Árið 2024 var hún kjörin í oddvitasæti lista Pírata í Norðvesturkjördæmi til alþingiskosninga.[10]
Árið 2015 hlaut Ugla fræðslu- og vísindaviðurkenningu Siðmenntar. [11]
Ugla var á lista breska ríkisútvarpsins, 100 Women, árið 2019.
{{cite web}}
: |title=
vantar (hjálp)
{{cite web}}
: |title=
vantar (hjálp)
{{cite web}}
: |title=
vantar (hjálp)
{{cite web}}
: |title=
vantar (hjálp)
{{cite web}}
: |title=
vantar (hjálp)
{{cite web}}
: |title=
vantar (hjálp)
{{cite web}}
: |title=
vantar (hjálp)
{{cite web}}
: |title=
vantar (hjálp)
{{cite web}}
: |title=
vantar (hjálp)