Vesturstrandar hipp hopp

Vesturstrandar hip hopp (einnig Vesturstrandarrapp) er undirflokkur í Hip Hop tónlist og menningu og á rætur sínar að rekja til vesturstrandar Bandaríkjanna. Almennt er talið að Hip Hop eigi uppruna sinn að rekja til austurstrandar Bandaríkjanna, hafi þróast þar og síðar breiðst út um bandaríkin og seinna heiminn.

Eazy-E (Eric Wright) í heimsókn hjá lögreglunni í Los Angeles.


Uppruna hip hop menningarinnar á vesturströndinni má rekja allt aftur á miðjann sjöunda áratuginn. Árið 1965 áttu sér stað óeirðir í Watts hverfinu í suðurhluta Los Angeles borgar þar sem fólk flykktist út á götur til að mótmæla þeim aðstæðum sem skapast höfðu í hverfinu. Atvinnuleysi, afskiptaleysi stjórnmálamanna, lélegur efnahagur og ágangur lögreglu hafði lengi verið vandamál og að lokum sauð upp úr. Óeirðirnar vörðu í sex daga og ollu miklu tjóni á eignum sem og fólki. Eftir óeirðirnar stofnuðu fjórir einstaklingar í Los Angeles hópinn „The Watts Prophets“ sem gáfu árið 1969 út plötuna „The Black Voices: On the Streets in Watts“. Á þeirri plötu tala meðlimir yfir trommutakta eða lög og minnir þessi tónlist meira á ræðumennsku en rapp eins og það varð síðar meir. Yrkisefni þeirra var meira og minna réttindi svertingja, en réttindabarátta svartra bandaríkjamanna var mikil um þessar mundir.

1978 varð hljómsveitin Uncle Jamm's Army til. Hún samanstóð aðalega af plötusnúðum sem tróðu upp í heimahúsum og sífellt stærri mannvirkjum eftir því sem vinsældir þeirra jókust. Frægasta lag þeirra er "Dial-a-Freak".

Gengjamenning

[breyta | breyta frumkóða]

Gengjamenningin á vesturströndinni hefur haft mikil áhrif á hip hop. Árið 1969 stofnaði ungur maður að nafni Raymond Washington samtök sem gengu undir nafninu „The Avenue Cribs“ og átti hópurinn í upphafi að gegna svipuðu hlutverki og „The Black Panthers“ samtökin sem voru um þær mundir að liðast í sundur. Hugmyndir Washington náðu þó ekki mikilli fótfestu og varð hópurinn fljótt að glæpasamtökum. Samtökin styttu nafnið fljótlega í Crips og þar með varð eitt frægasta glæpagengi sögunnar til. Önnur minni gengi í Los Angeles gerðu sér fljótt grein fyrir að Crips væru of sterkir til að hægt væri að berjast gegn þeim sundraðir og stofnuðu því annað gengi til að spyrna gegn þeim og fékk það nafnið „Bloods“. Þegar níundi áratugurinn gekk í garð færðist meiri harka í gengin. Krakk var nýkomið á markaðinn og veittu gengjunum meiri tekjur en nokkru sinni fyrr. Aukin harka færðist í leikinn þar sem gengi börðust um yfirráðasvæði þar sem þeir sáu um fíkniefnasöluna.

Breikdans varð til í New York borg á áttunda áratugnum þar sem dansflokkar á borð við Rock Steady Crew nutu vinsælda ungmenna. Þeir voru þó ekki þeir fyrstu til að dansa breik og byggðu margt af því sem þeir gerðu á því sem hafði verið að gerast á vesturströndinni á árunum áður. Árið 1969 varð til nýr dansstíll sem kallaðist „locking“. Ungur maður að nafni Don Campbell bjó til þennan stíl og stofnaði í kjölfarið dansflokkinn „The Lockers“. Flokkurinn kom fram í tveim af stærstu sjónvarpsþáttum þess tíma, Saturday Night Live og The Tonight Show. Þó svo „The Lockers“ dönsuðu ekki við hip hop tónlist þá voru danshreyfingar þeirra grunnurinn að breikdansi framtíðarinnar. World Class Wreckin‘ Cru: Alonzo William yngri öðlaðist frægð innan partísenunnar í Los Angeles í byrjun níunda áratugarins fyrir að halda góðar veislur. Í einni af þessum veislum komu að honum tveir menn, Roger Clayton og Andre Manuel. Þeir urðu fljótt vinir og ákváðu að stofna plötusnúðaþríeyki ásamt því að reka næturklúbb. Örlagaríkan dag árið 1982 kom ungur maður að nafni Andre Young á klúbbinn þeirra til að plötusnúðast og gerði það af þvílíkri snilld að brátt var hann tekinn inn í hópinn þeirra og tók þá upp listamannsnafnið Dr. Dre.

Plötuútgáfur

[breyta | breyta frumkóða]

Rappers Rapp Records var plötufyrirtæki sem stofnað var árið 1984. Plötum þeirra var dreift af Macola Record Company. Fyrirtækið lagði áherslu á að listamenn sem höfðu lítið fjármagn milli handanna gætu gefið út efnið sitt. Þetta hentaði ungum tónlistarmönnum vel og gaf fyrirtækið út efni fyrir nánast alla rappara á svæðinu á þeim tíma. Meðal þeirra listamanna sem gáfu út efni hjá þeim má helst nefna Egyptian Lover sem gaf út frumraun sína hjá þeim, World Class Wreckin' Cru, L.A Dream Team, Ice-T og Ice Cube ásamt tríóinu sínu Cru in Action. Einnig gáfu þeir út fyrir rapparana MC Hammer og Too Short. Eigandi plötufyrirtækisins, Don Macmillan, réð til sín mann að nafni Jerry Heller sem átti að koma þeim listamönnum sem þeir voru með á mála hjá sér betur á framfæri. Undir lok níunda áratugarins var Bryan Turner, eigandi Priority Records plötuútgáfunnar, að leita sér að nýjum listamönnum fyrir útgáfuna og komst að orði við Jerry Heller sem starfaði þá fyrir Macola plötuútgáfuna. Hann kom honum í kynni við sextettinn NWA(Niggaz Wit Attitudes) og skrifuðu þeir undir samning við útgáfuna.

Útvarpsstöðin KDAY spilaði einvörðungu rapp og hipp hop og átti stóran þátt í að koma vesturstrandar hipp hoppi á framfæri. Útvarpsstöðin var fyrsta hipp hopp stöð Bandaríkjana og var stjórnað af "Mack Attack" Mack.

Þegar Dr.Dre hafði verið í World Class Wreckin' Cru í þrjú ár skildust leiðir hans við hópinn. Hann komst í slagtog við mann að nafni Eric Wright sem hafði um tíma sóst eftir Dre vegna hljóðblöndunarhæfileika hans. Eftir að Wright borgaði tryggingargjald til að ná Dre út úr fangelsi gekkst hann undir að vinna fyrir Wright. Eric Wright, sem er þekktastur undir sviðsnafninu Eazy-E, fékk einnig til liðs við sig Dj Yella og rapparann O'Shea Jackson, betur þekktur undir listamannsnafninu Ice Cube.

Fyrsta lagið sem þeir unnu að saman var gefið út í nafni Eazy-E og nefnist Boyz-n-the-Hood. Lagið náði gríðarlegum vinsældum og seldust meira en hálf milljón eintaka á skömmum tíma. Um þetta leiti bættust tveir meðlimir við hópinn, rappararnir MC Ren og Arabian Prince. Þessi hópur gekk undir nafninu Niggaz Wit Attitudes (NWA) og vildu þeir taka bófarappið (e. Gangsta rap) upp á nýtt stig. Dr. Dre og DJ Yella sáu um lagasmíð og MC Ren, Ice Cube og The D.O.C. um textasmíð.

Eftir að hafa verið neitað af nokkrum útgáfufyrirtækjum skrifuðu þeir undir samning við Priority Records. NWA gerðu bófarappið vinsælt og hafði það mikil áhrif á rapptónlist komandi tíma.


Vestrið gegn austrinu

[breyta | breyta frumkóða]

Undir lok níunda áratugarins og fram á þann tíunda fór vesturstrandar hip hoppið að taka yfir iðnaðinn sem einkenndist þá aðallega af austurstrandar röppurum og tónlistinni þeirra. Listamenn á borð við Too $hort og Ice-T gáfu út plötur sem seldust í miklu magni og NWA gáfu út plöturnar Straight Outta Compton[1] og Niggaz4Life sem urðu báðar platínum plötur. Aðrir listamenn komu einnig upp á yfirborðið. Árið 1989 komu Cypress Hill fram í sviðsljósið og árið 1991 gáfu þeir út sína fyrstu plötu sem bar sama nafn og hljómsveitin. Sir Mix-A-Lot gaf sama ár út plötuna Mack Daddy sem innihélt slagarann Baby Got Back og seldist platan í 2 milljónum eintaka en lagið sjálft í 3 milljónum eintaka.

Vonarstjarna vesturstrandarinnar, Tupac Shakur, var einnig að stíga sín fyrstu frægðarskref. Hann gaf út sína fyrstu sólóplötu árið 1991 og bar hún nafnið 2pacalypse Now og er nafnið skýrskotun í kvikmyndina Apocalypse Now. Hann varð á stuttum tíma frægasti rappari sögunnar og er einnig einn af söluhæstu tónlistarmönnum allra tíma með í kringum 75 milljón plötur seldar. Allar 11 sólóplöturnar sem hann gaf út eða voru gefnar út í hans nafni náðu að verða platínum, en 7 af þessum 11 plötum voru gefnar út eftir dauða hans og er hann því einnig hátt á lista yfir þá listamenn sem hafa grætt mestann pening eftir dauða sinn.[2] Til að byrja með var hann á mála hjá Interscope útgáfufyrirtækinu en snemma árs 1996 flutti hann sig yfir til Death Row Records sem var í eigu Dr.Dre og Suge Knight og slóst þá í hóp listamanna á borð við Snoop Dogg og MC Hammer. Snoop Dogg gaf út á þeim tíma plötuna Doggystyle sem fékk fjórfalda platínuplötu[3], en síðan þá til ársins 2023 hefur hann verið tilnefndur til 17 Grammy verðlauna.

Margir af rapplistamönnum austurstrandarinnar mislíkaði velgengni starfsbræðra sinna á vesturströndinni og tjáðu þá skoðun sína í viðtölum og í lögum sínum. Þetta var upphafið að frægustu deilum í rappsögunni. Notorious B.I.G var rappari frá Brooklyn í New York og var á þessum tíma vinsælasti rappari austurstrandarinnar. Hann og Tupac voru vinir um tíma en það breyttist þegar setið var fyrir Tupac í andyrinu á hljóðveri hjá B.I.G. Í árásinni var hann skotinn fimm sinnum og rændur. Tupac sakaði B.I.G og félaga hans um að hafa staðið að árásinni og varð ágreiningurinn á milli þeirra fljótt brennipunktur deilnanna milli vestur og austurstrandarinnar. Þegar Suge Knight, annar af eigendum Death Row Records, var að taka við tónlistarverðlaunum í New York borg móðgaði hann framkvæmdastjóra útgáfufyrirtækisin Bad Boy Records, Sean Combs (einnig þekktur sem Puff Daddy), sem B.I.G starfaði fyrir. Mánuði eftir þann atburð hittust þeir Suge og Combs í samkvæmi og endaði sá fundur með dauða eins af fylgdarmönnum Suge var skotinn til bana af lífverði Combs. Deilurnar héldu áfram og árið eftir gaf Tupac út lagið Hit 'Em Up þar sem hann fór hörðum orðum um B.I.G og aðra rappara frá Austurströndinni. Þá mættust meðlimi Bad Boy og Death Row á tónlistarverðlaunahátíð í Los Angeles og drógu meðlimir beggja hópanna upp byssur. Seinna sama ár enduðu deilurnar milli Tupac og B.I.G þegar Tupac var skotinn til bana í Las Vegas. Ári síðar var B.I.G skotinn til bana þegar hann var að yfirgefa sömu tónlistarhátíð og hann mætti Death Row meðlimunum árið áður.[4] Deilurnar voru þó ekki eingöngu á milli þeirra Ice Cube stofnaði tríóið Westside Connection og gáfu þeir meðal annars út lagið All the Critics in New York árið 1996 þar sem þeir hóta þeim sem gagnrýna vesturströndina lífláti.[5][6][7]

  1. Huey, Steve. „Straight Outta Compton > Overview“. AllMusic. Sótt 17. ágúst 2007.
  2. The top earning dead musicans. Forbes.
  3. „Today in Hip Hop History: Snoop Dogg Releases His Debut Album 'Doggystyle' 22 Years Ago“. The Source. 23. nóvember 2015. Sótt 28. apríl 2016.
  4. http://articles.latimes.com/2002/sep/07/news/gr-tupacfeud7
  5. Syd Caesar"Westside Story: The History of West Coast Hip Hop", skoðað 10.mars
  6. "West Coast hip hop". Geymt 21 mars 2013 í Wayback Machine, skoðað 10.mars
  7. Gregory "G.Bone" Everett, "The Secret History of West Coast Hip Hop". Geymt 20 apríl 2012 í Wayback Machine, skoðað 9.mars 2013.