Zig og Puce (franska: Zic et Puce) er heiti á teiknimyndasagnaflokki eftir franska listamanninn Alain Saint-Ogan. Þær hófu göngu sína árið 1925 og áttu eftir að hafa mikil áhrif á þróun fransk-belgísku myndasögunnar.
Zic og Puce eru táningspiltar, annar stuttur og þéttur en hinn langur og mjór, sem lenda í ótrúlegum ævintýrum. Atburðarásin berst um fjarlæg lönd og til annarra reikistjarna, lokatakmark þeirra félaganna er þó alltaf að komast til Bandaríkjanna að verða auðkýfingar. Á ferðum sínum á Grænlandi kynnast þeir mörgæsinni Alfreð sem fylgir þeim í seinni ævintýrum.
Fram á sjötta áratuginn komu átján bækur út um Zig og Puce eftir Saint-Organ. Um miðjan sjöunda áratuginn fékk myndasöguhöfundurinn Greg leyfi til að endurvekja bókaflokkinn og komu út sex sögur til viðbótar.
Áhrif sagnaflokksins voru margháttuð og er þáttur þeirra á upphafsskeiði fransk-belgísku myndasögunnar talinn mikilvægur. Þannig eru þetta taldar fyrstu frönsku myndasögurnar sem notuðust við talblöðrur, en bandarískir teiknarar höfðu kynnt þær til sögunnar nokkru fyrr.
Mörgæsin Alfreð (sem raunar lítur ekki út eins og nein þekkt mörgæsategund) er einnig talin hafa rutt brautina fyrir þann sið að láta myndasöguhetjur eiga gæludýr með mennska eiginleika. Dæmi um slíkt er Tobbi hundur Tinna; Krílríkur hundur Steinríks, Léttfeti hestur Lukku-Láka og Pési íkorni Svals.
Hergé, höfundur Tinna-bókanna, leit mjög upp til Alains Saint-Organs og hélt á fund hans sem ungur teiknari til að leika ráða.
Vinsældir persónanna voru miklu meiri en áður voru dæmi um varðandi myndasögupersónur í hinum frönskumælandi heimi. Frasar úr bókunum komust inn í almennt málfar og persónurnar komu fyrir í vinsælum dægurlögum og leikritum á sínum tíma.