Ásmundur Sveinsson (20. maí 1893 – 9. desember 1982) var íslenskur myndhöggvari sem er frægastur fyrir einföld formhrein fígúratív og abstrakt verk sem mörg hafa verið stækkuð mikið og steypt sem minnismerki. Meðal verka hans má nefna Sonatorrek við Borg á Mýrum og Sæmund á selnum við Háskóla Íslands.
Ásmundur lærði upphaflega tréskurð hjá Ríkarði Jónssyni. 1919 fór hann til Kaupmannahafnar og þaðan til Stokkhólms þar sem hann nam höggmyndalist í sex ár við Listaakademíuna. Eftir útskrift þaðan flutti hann til Parísar þar sem hann lærði hjá Charles Despiau.
Hann flutti aftur til Íslands 1929 og hóf að búa til höggmyndir af fólki við störf með einfölduðum formum (Járnsmiðurinn, Þvottakonan og Vatnsberinn t.d.). Smám saman þróaðist list hans út í hreinar abstrakt eða kúbískar myndir.
1933 lét hann reisa hús við Freyjugötu eftir eigin teikningum í Bauhausstíl. Það hús er nú kallað Ásmundarsalur og er í eigu Listasafns ASÍ. 1942 hóf hann svo byggingu húsanna við Sigtún þar sem Ásmundarsafn er núna til húsa en hann ánafnaði Reykjavíkurborg listaverkasafni sínu og húsunum áður en hann lést.