Ólafs saga Tryggvasonar hin mesta — (eða Óláfs saga Tryggvasonar en mesta) — er konungasaga, sem fjallar um Ólaf Tryggvason Noregskonung. Hún er samin um 1300 og styðst við Ólafs sögu Tryggvasonar eins og Snorri Sturluson gekk frá henni í Heimskringlu, en eykur frásögnina mikið með öðru efni. Einkum er stuðst við fyrri sögur um Ólaf konung, t.d. Ólafs sögu Tryggvasonar eftir Odd munk Snorrason, glataða sögu um Ólaf eftir Gunnlaug Leifsson, og e.t.v. einnig efni úr öðrum glötuðum ritum eða úr munnlegri geymd.
Sagan er varðveitt í nokkrum handritum, sem skipta má í tvo flokka. Eldri útgáfa sögunnar er í handritunum AM 61 fol. (aðalhandrit, A), AM 53 fol., AM 54 fol., Bergsbók og Húsafellsbók. Yngri útgáfa, endurskoðuð og aukin (D-gerð), er í handritunum AM 62 fol. og Flateyjarbók. Í Flateyjarbók er sagan mikið aukin, með því að skotið er inn í hana heilum sögum, eða köflum úr sögum, sem eitthvað tengjast Ólafi konungi Tryggvasyni. Þannig hefur varðveist margvíslegt efni sem annars væri glatað, t.d. meginhluti Færeyinga sögu, sem er þar í upprunalegri gerð.
Í Ólafs sögu Tryggvasonar hinni mestu eru varðveittir margir þættir og sögubrot, sem eru ekki til annars staðar. Þó að sagan sé hálfgerður óskapnaður, gefur hún mikilvæga sýn inn í íslenskan bókmenntaheim um 1300.
Ólafur Halldórsson handritafræðingur hefur gefið út Ólafs sögu Tryggvasonar hina mestu á vegum Árnastofnunar í Kaupmannahöfn (Den Arnamagnæanske Samling). Er útgáfan í þremur bindum, og birtist árin 1958, 1961 og 2000 í ritröðinni Editiones Arnamagnæanæ, Series A. Einnig hefur Ólafur gefið út annað efni sem tengist sögunni, t.d. Færeyinga sögu o.fl.