Draumkvæðið er þekktasta fornkvæði (eða þjóðkvæði) Norðmanna. Kvæðið er talið frá miðöldum og telst til leiðslubókmennta.
Draumkvæðið var „uppgötvað“ á Þelamörk í Austur-Noregi um 1840, einkum í Lårdal, Kviteseid og Mo. Engar eldri heimildir eru um kvæðið. Uppskriftir sem gerðar voru af Draumkvæðinu eru mjög brotakenndar og ólíkar hver annarri. Þekktasta útgáfan er endurgerð sem Moltke Moe gerði um 1894, og er alls 52 vísur.
Draumkvæðið hefst með vísu, þar sem ljóðmælandinn kynnir sig. Síðan er sagt frá því að Ólafur Ástuson (hjá flestum heimildarmönnum Åkneson eða Håkinson) sofnar á jólanótt og vaknar ekki fyrr en á þrettánda degi (6. janúar). Hann ríður til kirkju, sest í kirkjudyrnar og segir draum sinn. Í draumnum gekk hann yfir Gjallarbrú, sem skilur okkar heim frá ríki hinna dauðu. Hann braust gegnum þyrnigerði og yfir fenjasvæði, sá helvíti og einnig himnaríki, þar sem María guðsmóðir sat. Að lokum birtist honum frumdómurinn (þ.e. dómurinn fyrst eftir dauðann), þar sem Mikjáll erkiengill vó syndugar sálir á skálavog.
Niels Svenungsen, hringjari í Vinje, var sá fyrsti sem skrifaði upp vísur úr Draumkvæðinu. Árið 1842 sendi hann uppskrift með 61 vísu til Olea Crøger. Þetta voru sundurlaus brot sem hann hafði skrifað upp eftir mörgum heimildarmönnum. Um það skrifar hann:
Ég hef haft mikið fyrir því að safna þessum vísum. Ég hef leitað uppi elstu menn í mörgum prestaköllum, sem hafa kunnað eitthvað úr kvæðinu, og það liðu mörg ár þar til ég náði saman þeim vísum sem ég sendi nú. Og ekki var nóg að safna þessu, heldur var einnig mikil vinna að raða þessu saman, því að kvæðið var allt í brotum og án samhengis. |
Til eru um 70 uppskriftir af Draumkvæðinu, en flestar eru örfáar vísur. Aðeins ein uppskrift (30 vísur), sem presturinn Magnus Brostrup Landstad skrifaði upp um 1847 eftir Maren Ramskeid, er í einhverju samhengi. Maren, sem var þrítug vinnukona, hafði lært kvæðið af föður sínum, og hann af sínum föður. Landstad birti uppskriftina í Norske Folkeviser 1853, og einnig endurgerð sína af kvæðinu.
Sveitafólk á Þelamörk vissi að kvæðið var óheilt, og taldi jafnvel að það hefði í öndverðu verið mörg hundruð vísur.
Jørgen Moe taldi að Draumkvæðið væri mjög gamalt, jafnvel frá því skömmu eftir kristnitöku og að Ólafur Ástuson hlyti að vera Ólafur helgi. M. B. Landstad var sömu skoðunar, en taldi að höfundar Sólarljóða og Draumkvæðisins hefðu notað sem fyrirmynd draumsýn eða leiðslu hins heilaga Ansgars, erkibiskups í Brimum.
Nokkru síðar birti Sophus Bugge grein sem markaði stefnu í rannsóknum á Draumkvæðinu í nær hundrað ár. Hann benti á að kvæðið væri náskylt leiðslubókmenntum miðalda, einkum mætti sjá skyldleika við sýn írska riddarans Tundals frá 1149, sem þýdd var á norrænu um 1250 undir nafninu Duggalsleiðsla. Þegar Moltke Moe hélt kunna fyrirlestra sína um Draumkvæðið árin 1891–92, lýsti hann sig í meginatriðum sammála Sophusi Bugge. Knut Liestøl taldi kvæðið vera frá 1250–1300, og hafnar því að vísað sé til Ólafs helga, Olav Åkneson eða Håkinson sé upprunalegra. Almennt eru menn nú sammála um að kvæðið sé úr kaþólskri tíð. T.d. telur Bengt R. Jonsson líklegt að kvæðið sé ort á árabilinu 1350 til 1550. Kvæðið getur tæplega verið eldra en frá því skömmu fyrir 1300. Ef það er svo gamalt hefur upphaflegur málfarsbúningur þess verið norræna (þ.e. íslenska).
Um 1970 komu fram þau sjónarmið að líta bæri eingöngu á kvæðið eins og það varðveittist, og hafna tilraunum til að endurgera það. Brynjulf Alver hefur gengið einna lengst í þessu efni. Hann telur óvíst að Draumkvæðið sé eldra en frá því um 1700, og bendir á að þegar það var skrifað upp hafi það yfirleitt verið sundurlausar vísur og hafi e.t.v. aldrei verið í öðru formi.
Þeir Jørgen Moe (1847) og M. B. Landstad (1853) birtu endurgerðir af Draumkvæðinu, en sú sem hlaut almennasta viðurkenningu var útgáfa Moltke Moes frá því um 1894. Hann lagði til grundvallar textann sem skrifaður var upp eftir Maren Ramskeid, en notaði einnig vísur frá öðrum heimildarmönnum. Í endurgerð sinni lagði hann áherslu á að sýna tengslin við Duggalsleiðslu. Til voru þeir sem töldu að Moltke Moe hefði ekki gengið nógu langt. Meðal þeirra var Ivar Mortensson-Egnund, sem birti árið 1927 sína eigin útgáfu, með 119 vísum.
Draumkvæðið var sungið, enda er það danskvæði að formi, þó að það sé helgikvæði að efni. Á 19. öld voru skráð nokkur lög við kvæðið. Þeir sem flytja kvæðið nú, nota yfirleitt sérstakt lag við hvern hluta kvæðisins. Ástæðan fyrir því er, að aðalheimildarmaðurinn, Maren Ramskeid, notaði nokkur mismunandi lög þegar hún söng kvæðið fyrir M. B. Landstad.
Draumkvæðið er varðveitt á mállýsku frá Þelamörk. Nokkrar þýðingar á kvæðinu eru til.
Segja má að Draumkvæðið sé sveipað vissum dularljóma, og á það eflaust þátt í að fagrar útgáfur hafa verið gerðar af kvæðinu, myndskreyttar af þekktum listamönnum.
Kristján Eldjárn hefur þýtt kvæðið á íslensku, sjá heimildaskrá. Hann telur Draumkvæðið og Sólarljóð gnæfa upp úr þorra leiðslurita að skáldskapargildi.