Furðulegar uppljóstranir (franska: La jeunesse de Spirou) er 38. Svals og Vals-bókin og sú sjötta eftir félagana Tome og Janry. Bókin kom út á frummálinu og í íslenskri þýðingu árið 1987.
Bókin skiptist upp í nokkrar stuttar sögur. Sú fyrsta er einungis átta síður og segir frá æskuárum Svals. Varð hún upphafið að sjálfstæðri ritröð um ævintýri Litla-Svals.
Fláráði falsarinn segir frá eltingaleik Svals og Vals við falsara sem býður til sölu fimmtu Viggó-bókina (en fimmta heftið kom aldrei út í franska bókaflokknum).
Einkaþjónn forsetans lýsir vandræðum Svals á Þorláksmessukvöldi þegar hann er tekinn í misgripum fyrir lyftuþjón og hefur svo hlutverkaskipti við Bandaríkjaforseta.
Hið óttalega burp segir frá tilraun Sveppagreifans sem breytir bæjarfyllibyttunni í Sveppaborg í herfilegt skrímsli. Inn í atburðarásina fléttast misheppnað póstrán.
Villandi ljósmynd segir frá samkomu vísindamanna á setri Sveppagreifans. Í hópnum leynast tveir svikahrappar en Svalur og Valur afhjúpa þá með aðstoð gamallar ljósmyndar.
Bókin kom út í íslenskri þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar á vegum Iðunnar árið 1987. Þetta var 24. bókin í íslensku ritröðinni.