Gísli Marteinn Baldursson

Gísli Marteinn Baldursson (f. 26. febrúar 1972) er íslenskur dagskrárgerðarmaður í Sjónvarpinu og fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur. Foreldrar hans eru Baldur Gíslason fyrrverandi skólameistari við Iðnskólann í Reykjavík og Elísabet J. Sveinbjörnsdóttir leikskólastjóri. Gísli Marteinn er kvæntur Völu Ágústu Káradóttur íslenskufræðingi og eiga þau tvær dætur.

Gísli Marteinn stundaði nám í Verslunarskóla Íslands og lauk þaðan prófi 1992. Á árunum 1996 til 1997 var hann við háskólann í Tübingen í Þýskalandi í tengslum við ERASMUS stúdentaskiptaverkefnið. Hann lauk BA prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands 2008 og MSc í Borgarfræðum (MSc in The City) frá Edinborgarháskóla 2009.

Félagsstörf

[breyta | breyta frumkóða]

Gísli Marteinn var forseti Nemendafélags Verzlunarskóla Íslands 1991 - 1992. Fyrir hönd skólans komst hann þrívegis í úrslit Morfís, sigraði keppnina tvívegis og varð ræðumaður Íslands árið 1992. Við Háskóla Íslands var hann formaður Vöku árin 1994 - 1995 . Sat í Stúdentaráði 1994 - 1996 og í stjórn Stúdentaráðs 1995 - 1996.

Störf hjá sjónvarpinu

[breyta | breyta frumkóða]

Gísli Marteinn starfaði í Sjónvarpinu frá 1997, fyrst sem fréttamaður en síðar sem dagskrárgerðarmaður. Hann var upphafsmaður þáttarins Kastljóss sem hóf göngu sína 3. janúar 2000. Árið 2002 hóf hann að stýra þættinum Laugardagskvöldi með Gísla Marteini sem var um árabil í íslensku sjónvarpi. Gísli Marteinn var valinn sjónvarpsmaður ársins á Edduverðlaunahátíðinni 2003.

Gísli hefur verið með spjallþætti síðustu ár á Rúv; Sunnudagsmorgun, Föstudagskvöld og Vikan með Gísla Marteini sem er í gangi nú.

Stjórnmálaferill

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2002 var Gísli Marteinn kjörinn varaborgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn og árið 2006 var hann kjörinn borgarfulltrúi fyrir flokkinn og skipaði þriðja sætið á lista hans fyrir borgarstjórnarkosningarnar. Hann bauð sig ekki fram í sveitarstjórnarkosningunum 2014