Hákon ungi Hákonarson (10. nóvember 1232 – 5. maí 1257) var sonur Hákonar gamla Noregskonungs, og meðkonungur hans frá 1. apríl 1240 til dauðadags. Móðir Hákonar var Margrét drottning, dóttir Skúla jarls.
Hákon fékk konungstitilinn árið 1240, þegar hann var á áttunda ári, en þá hafði Skúli afi hans gert misheppnaða uppreisn og reynt að brjótast til valda. Hann giftist 1251 Ríkissu dóttur Birgis jarls og systur Svíakonunganna Valdimars Birgissonar og Magnúsar hlöðuláss. Hún var þá líklega um 13 ára að aldri og var stofnað til hjónabandsins í framhaldi af friðarsamningum milli Norðmanna og Svía árið 1249. Eftir lát Hákonar giftist hún aftur Hinrik fursta af Mecklenburg-Werle.
Hákon og Ríkissa áttu aðeins einn son, Sverri, sem lést 1261 níu ára gamall, þannig að við lát Hákonar gamla 1263 varð yngsti sonur hans, Magnús lagabætir, konungur.