Juan Carreño Lara (f. 14. ágúst 1909 - 16. desember 1940) var mexíkóskur knattspyrnumaður sem keppti fyrir hönd þjóðar sinnar á Ólympíuleikunum 1928 og fyrstu heimsmeistarakeppninni árið 1930 þar sem hann skoraði fyrsta mark Mexíkó í sögu HM.
Juan Carreño fæddist í Mexíkóborg og ólst upp í einu af fátækrahverfum borgarinnar. Sextán ára gamall fékk hann boð um að spila fyrir Atlante F.C. sem hann lék fyrir allan feril sinn ef undan er skilin leiktíðin 1933-34 þegar hann var í herbúðum Real Club España. Hann varð mexíkóskur meistari með España-liðinu og hafði áður unnið sama titil með Atlante árið 1931-32.
Carreño var frægur ef ekki alræmdur fyrir að neita að hlýða fyrirmælum og brjóta allar þær agareglur sem honum voru settar. Hann stundaði skemmtanalífið af krafti og skipti þar engu hvort leikir væru framundan. Hvatvísin jók vinsældir hans meðal almennra fótboltaáhugamanna þótt þjálfurum og eigendum knattspyrnuliða væri ekki skemmt.
Landsleikir Carreño urðu átta talsins á árunum 1928 til 1934. Sá fyrsti var á Ólympíuleikunum í Amsterdam þar sem Mexíkó beið afhroð gegn Spáni í fyrsta leik, 7:1, þar sem Carreño skoraði næstsíðasta markið.
Á HM í Úrúgvæ tveimur árum síðar mættust Mexíkó og Frakkland í opnunarleiknum. Frakkar unnu 4:1 en Carreño minnkaði muninn í 3:1 þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka. Carreño lék í tveimur seinni leikjum Mexíkó á HM en tókst ekki að skora.
Fjórum árum síðar var Carreño í mexíkóska landsliðshópnum sem hélt til Ítalíu til að keppa á HM 1934 þegar til Rómar var komið þurfti liðið að keppa við Bandaríkin um sæti Norður-Ameríku í keppninni. Bandaríska liðið fór með sigur af hólmi 4:2 og reyndist þetta síðasti landsleikur Carreño.
Hann lést árið 1940 eftir að bráða botnlangabólgu.