Kleppur eða Kleppsspítali, er geðspítali sem tilheyrir geðsviði Landspítalans. Kleppur er einnig örnefni í Reykjavík.
Fyrstu lög um Kleppsspítala voru nr. 33/1905, samþykkt af konungi þann 20. október 1905 (frumvarp um stofnun Kleppsspítala var þó innlent fyrirbæri) og var spítalinn opnaður árið 1907. Kleppsspítali var fyrsta sjúkrastofnunin sem var reist og rekin alfarið af landsjóði. Markmið stofnunarinnar var að létta miklum vanda af heimilum geðsjúkra og búa geðsjúkum mannsæmandi aðbúnað og gæslu, frekar en að stunda eiginlegar lækningar. Upprunalega var pláss fyrir 50 sjúklinga, og þurftu aðstandendur að borga með sjúklingum, ýmist 50 aura eða 1 krónu á dag, eftir aðstæðum. Yfirstjórn spítalans samanstóð af landlækni og aðila sem stjórnarráðið skipaði.
Sem fyrr segir var vandi geðsjúkra og aðstandenda þeirra mikill á þeim tíma er Kleppsspítali var stofnaður. Einnig var farið illa með geðsjúka og lífsskilyrði þeirra voru engan veginn á við þau sem heilbrigðir höfðu. Árið 1901 var gerð úttekt á hversu margir væru geðsjúkir í landinu (samkvæmt þess tíma skilgreiningu) og reyndust þeir 133, þar af 124 sem voru á sveit. Árið 1880 reyndust geðsjúkir vera 81, var því um mikla fjölgun að ræða á þessum rúmu tveimur áratugum.
Spítalinn breytti miklu, þó að hann gæti ekki tekið alla inn sem þurftu, og lét Guðmundur Björnsson þau orð falla á Alþingi um þremur mánuðum eftir opnun spítalans, að sjúkrahúsið hefði „getið sjer þann orðstír, að það sje einhver gagnlegasta stofnun þessa lands“.
Starfsemin í dag er gerbreytt með breyttum áherslum og tilkomu nýrra og betri meðferðarúrræða. Í dag eru reknar nokkrar deildir á Kleppsspítala, starfsemi þeirra felst aðallega í endurhæfingu og að veita fólki margvíslega meðferð, sem er haldið geðröskunum eða talið vera að veikjast af þeim -- til dæmis geðklofa, geðhvarfasýki, þunglyndi, fíkn eða persónuleikaröskun. Á Kleppsspítala eru nú göngudeild, endurhæfingargeðdeild, öryggisgeðdeild og réttargeðdeild. Þá sér Batamiðstöð og iðjuþjálfun í nálægum húsum einnig um virkni sjúklinga. Batastefnan hefur skipað sér æ meiri sess í endurhæfingu og að sjúklingar stýri sinni meðferð í meiri mæli.
Myndirnar eru af Kleppsspítalasvæðinu, teknar í mars 2006.