Marbach-kastalinn er kastalavirki í þýsku borginni Marburg og myndaðist bærinn upphaflega í kringum hann. Hann var reistur í áföngum frá og með 11. öld. Í honum hófust siðaskiptin í Hessen 1526. Í honum var háskólinn stofnaður ári síðar. Og í honum fór trúfundurinn mikli fram 1529.
Ekki er nákvæmlega vitað hvenær Marbach-kastalinn var reistur, en það mun hafa verið snemma á 11. öld. Hann hefur verið stækkaður nokkrum sinnum í gegnum tíðina. Kastalinn kom fyrst við skjöl 1138 og var aðsetur landgreifanna í Hessen úr hinum og þessum ættum. 1308 flutti landgreifinn til Kassel og missti Marburg þá mikið af vægi sínu. Snemma á 16. öld settist landgreifinn Filippus hinn kjarkmikli hins vegar aftur að í kastalanum. Meðan Filippus bjó þar, gerðust þrír merkir atburðir þar. 1526 snerist Filippus til lúterstrúar og skipulagði hann siðaskiptin í greifadæmi sínu í kastalanum. Aðeins ári síðar stofnaði hann háskólann í Marburg í þessum sama kastala. Fyrstu árin fór kennsla fram í kastalanum meðan verið var að reisa nýtt hús undir þá starfsemi. Það hús stendur enn í miðborg Marburg. Árið 1529 bauð Filippus helstu frömuðum siðaskiptanna til fundar í kastala sínum. Þar mættu menn á borð við Martein Lúther og Ulrich Zwingli. Á þessum fundi kom til ósættis milli Lúthers og Zwinglis og rökræddu þeir ýmis trúaratriði sem þeir voru ósammála um. Ekki tókst að jafna þann ágreining þarna og afleiðingarnar voru þær að Lúther (og eftirmaður hans, Melanchton) urðu upphafsmenn að lúterstrúnni, en Zwingli varð upphafsmaður að reformeruðu kirkju mótmælenda. 1623 hertók Tilly borgina og kastalann fyrir hönd keisarahersins í 30 ára stríðinu. Honum var skilað aftur í stríðslok 1648. Kastalinn var aftur hertekinn í 7 ára stríðinu um miðja 18. öld. Í upphafi 19. aldar, þegar hermenn Napoleons hertóku borgina, sprengdu þeir stóran hluta kastalans og notuðu afganginn sem fangelsi. Eftir að Marburg varð hluti Prússlands 1866, var kastalinn notaður sem skjalasafn allt til 1938. Eftir seinna stríð eignaðist háskólinn kastalann, sem lét endurreisa þá hluta sem ónýttir höfðu verið. 1976 var kastalinn opnaður sem safn.